fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Höfðar mál á hendur meintum systrum sínum og stjúpmóður

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 11. janúar 2024 11:30

Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Lögbirtingablaðinu í dag er birt stefna í faðernismáli sem maður á sjötugsaldri hefur höfðað. Maðurinn gerir þá kröfu að viðurkennt sé að tiltekinn maður, sem er látinn, sé faðir hans. Hann höfðar málið á hendur eiginkonu mannsins og dætrum hans, meintum hálfsystrum sínum og stjúpmóður. Um er að ræða þriðja faðernismálið sem höfðað hefur verið vegna faðernis mannsins.

Hinn látni væri í dag á tíræðisaldri. Í stefnunni er gerð krafa um að gerð verð mannerfðafræðileg rannsókn á afkomendum hans.

Maðurinn sem höfðar málið býr í dag erlendis. Í stefnunni segir að hann sé fæddur hér á landi. Þegar hann kom í heiminn var móðir hans hvorki gift né í sambúð. Þegar maðurinn var nokkurra mánaða gamall höfðaði móðir hans faðernismál á hendur öðrum manni en þeim manni sem maðurinn gerir nú kröfu um að viðurkennt verði að sé faðir hans. Í því faðernismáli fór fram blóðflokkarannsókn sem útilokaði að sá maður, sem einnig er látinn, væri faðirinn.

Nokkrum árum síðar höfðaði móðir mannsins faðernismál á hendur þeim manni sem maðurinn sem höfðar málið nú gerir kröfu um að lýstur sé faðir sinn. Þessu öðru faðernismáli móðurinnar var frestað í  tæp tvö ár en niðurstaða þess var sú að ef móðirin ynni eið að því að hún hefði ekki haft samræði, á því tímabili sem talið var að barnið væri getið, við aðra menn en þá tvo sem hún hafði höfðað faðernismál gegn yrði maðurinn í seinna málinu að teljast faðir barnsins.

Í stefnunni segir að engin gögn hafi fundist um að móðirin hafi nokkurn tímann unnið þennan eið og því var maðurinn í seinna faðernismáli hennar sýknaður af öllum kröfum.

Slíkir eiðar höfðu fram að þessu verið nýttir í margar aldir í faðernismálum á Íslandi.

Mannlegur harmleikur

Af lýsingum í stefnunni má að ráða að í raun sé um mannlegan harmleik að ræða. Þar segir að móðir mannsins, sem höfðar málið nú, hafi glímt við andlega vanheilsu á þeim tíma sem seinna faðernismál hennar var tekið fyrir. Nokkrum árum eftir seinna faðernismálið sem hún höfðaði tók hún eigið líf. Sonur hennar ólst upp án þesss að vita hver faðir hans væri og hafði engin kynni af mönnunum tveimur sem faðernismál höfðu verið höfðuð gegn.

Í stefnunni segir að maðurinn sem var útilokaður sem faðirinn með blóðflokkarannsókn í fyrsta faðernismálinu hafi þrátt fyrir það verið skráður sem faðir mannsins, sem höfðar málið nú, í Þjóðskrá en það hafi nýlega verið leiðrétt og maðurinn sé í dag skráður án föður.

Maðurinn fór fram á það við Endurupptökudóm að dómurinn í seinna faðernismálinu yrði endurupptekinn. Því var hafnað á þeim grunni að í lögum væri ekki heimild fyrir því að börn látinnar manneskju gætu krafist endurupptöku á dómi í einkamáli sem hinn látni einstaklingur átti aðild að. Manninum væri þó heimilt að höfða nýtt mál og það hefur hann nú gert.

Fram kemur í stefnunni að maðurinn hafi um nokkurn tíma glímt við illvígan sjúkdóm. Honum sé mikið í mun að fá úr uppruna sínum skorið áður en yfir lýkur. Hann sé í dag skráður án föður en skýrt sé um það kveðið í barnalögum að barn eigi skýlausan rétt til að þekkja báða foreldra sína.

Í stefnunni segir enn fremur að hinn látni maður, sem nú er gerð krafa um að viðukennt verði að sé faðir mannsins sem höfðar málið, hafi á sínum neitað því fyrir dómi að hafa haft samræði við móðurina. Þrátt fyrir þessa neitun hafi maðurinn beðið móðurina um að þegja yfir kynnum þeirra. Segir að hinn meinti faðir hafi á þessum tíma átt náin kynni við fleiri konur og eignast þrjú börn með þremur konum, öll utan hjónabands.

Próf sýni fram á skyldleika

Samkvæmt blóðflokkarannsókn er mögulegt að maðurinn, sem þetta faðernismál snýst um, sé faðir mannsins sem höfðar málið nú.

Í ljósi þeirra tækniframfara sem orðið hafa síðan fyrri tvö faðernismálin voru tekin fyrir telur maðurinn sem höfðar málið nú að hægt sé að staðfesta með óyggjandi hætti hvort umræddur maður sé faðir hans eða ekki. Í stefnunni kemur fram að maðurinn, sem höfðar málið, hafi farið í svokallað DNA-Heritage próf sem sýni fram á mikinn skyldleika með afkomendum mannsins sem gerð er krafa um að lýstur verði faðir hans.

Auk mannerfðafræðilegra rannsókna á dætrum hins látna gerir maðurinn kröfu um að blóðsýni úr hinum látna, sem ætla megi að sé í Lífsýnasafni meinafræðideildar Landspítalans, verði rannsakað.

Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í næsta mánuði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“