Bjarni Benediktsson var sæmdur stórkrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir jól. Engin sérstök tilkynning var gefin út um þetta.
Viljinn greinir frá.
Orðuveitingin fór fram þann 22. desember en fjölmiðlum ekki tilkynnt um þetta. Stórkrossinn er fjórða stig fálkaorðunnar og æðsta stigið sem aðrir en þjóðhöfðingjar geta fengið.
Hjá embætti forseta segir að Bjarni hafi verið sæmdur krossinum fyrir embættisstörf. Hann gegnir nú stöðu utanríkisráðherra en hefur áður gegnt stöðu forsætisráðherra og lengst af fjármálaráðherra.
Hefð er fyrir því að forsætisráðherrar landsins fái stórkrossinn. Aðrir sem hafa fengið hann eru meðal annars Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Davíð Oddsson, Geir H. Haarde, Þorsteinn Pálsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.