Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur sent frá sér tilkynningu vegna vinnuslyssins í Grindavík í dag þar sem maður féll ofan í sprungu.
Jörð gaf sig undan vinnutæki og maður féll í djúpa sprungu sem opnaðist. Enginn sjónarvottur var að slysinu. Leitaraðgerðir standa yfir undir stjórn lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Í tilkynningunni segir ennfremur:
„Verkefnið sem unnið var að, var að fylla í sprungu við hús sem stendur við Vesturhóp í Grindavík, með það að markmiði að tryggja öryggi umhverfisins og hússins sem stóð við sprunguna. Verkefnið tengdist vinnu við tjónamat og öryggisaðgerðir í tengslum við það á vegum Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ).“
Sjá einnig: Viðbragðsaðilar leita manns sem talinn er hafa fallið í sprungu í Grindavík