Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022 hafa rúmlega 60.000 úkraínskir hermenn gerst liðhlaupar. Um helmingur liðhlaupanna hefur átt sér stað nú á árinu að sögn Kyiv Post.
Margar ástæður eru fyrir því að hermennirnir ákveða að gerast liðhlaupar. Ein af þeim algengustu er að hermennirnir fá ekki oft frí frá átökunum í fremstu víglínu. Hermaður að nafni Oleksij sagði í samtali við Kyiv Post að hann hafi aðeins fengið frí þrisvar sinnum síðan stríðið braust út.
„Einu sinni á ári hitti ég fjölskyldu mína í rétt rúmlega viku. Næsta árið sef ég í skotgröfum og borða dósamat á meðan sprengjum rignir yfir okkur. Það er meira en þreyta sem hrjáir. Ég sting auðvitað ekki af en ég skil þá sem gera það,“ sagði hann.