Ástand húsnæðismála er með erfiðasta móti og sérstaklega erfitt fyrir þá sem hyggja á fyrstu íbúðarkaup. Skortur er á húsnæði, verð er afar hátt og afborganir af lánum eru þungar vegna hárra vaxta.
Meðal þeirra úrræða sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á eru hlutdeildarlán. Fjármagn til þeirra hefur hins vegar ekki skilað sér þrátt fyrir loforð þar um. Þess vegna spyr Salvör Sigríður Jónsdóttir, í aðsendri grein í Morgunblaðinu, hvort það sé endilega gott að kjósa Framsókn. Hún beinir orðum sínum að Sigurði Inga Jóhannessyni fjármálaráðherra:
„Ástæða þess að ég skrifa þér opið bréf, kæri fjármálaráðherra, er sú að ég er að bíða eftir að gera keypt mér eign til þess að geta flutt að heiman. Jú, ég gæti flutt að heiman og farið að leigja, nei, það gengur ekki því þá dett ég aftur inn á leigumarkaðinn, þar er ég jafn föst og að vera heima hjá foreldrum mínum. Ég ætla að taka fram strax að ég hef það ótrúlega gott í lífinu og er heppin að eiga góða foreldra sem styðja mig í því sem ég er að gera og geta leyft sér það.
Nú hafa hlutdeildarlánin verið lokuð frá því í mars/apríl á þessu ári, en 23. júní síðastliðinn var samþykkt aukafjármagn til HMS frá alþingi, en það fjármagn hefur ekki enn skilað sér til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til þess að ríkið geti aðstoðað fyrstu kaupendur við kaup á íbúð. Því spyr ég: Hvers vegna er þetta leyfilegt, að láta fyrstu kaupendur bíða endalaust eftir því að þú, ágæti herra fjármálaráðherra, sendir fjármagnið inn í kerfið og þessir einstaklingar geti farið og keypt sér íbúð? En jú, húsnæði er eitt það mikilvægasta í lífi okkar allra og þykir sjálfsagður hlutur. Því langar mig að kasta fram spurningunni: Hvað ætlar þú að vera lengi að flytja þennan eina milljarð inn í lánakerfið hjá HMS? Ég hringdi síðast í morgun í HMS að spyrja starfsmennina þar hvort og hvenær yrði opnað fyrir hlutdeildarlán. Sama svar og venjulega: Nei, það er ekki búið að opna fyrir þau og við vitum ekki hvenær það verður gert aftur. Það er alveg orðið rosalega þreytt að vera þjóðfélagsþegn sem bíður og bíður, ég borga skatta og hef gert frá 13 ára aldri eða þegar ég byrjaði að vinna fyrst.“
Salvör segist gera sér grein fyrir því að miklar kröfur séur gerðar á stjórnvöld um fjárútlát. Það þurfi vissulega að forgangsraða. Hins vegar segist hún vera orðin langþreytt á að bíða eftir þessu boðaða úrræði fyrir fyrstu kaupendur sem hlutdeildarlánin eru. Hún beinir orðum sínum til ráðherra:
„Minni þig á það aftur, eins og ég segi hérna fyrir ofan: Hlutdeildarlánin lokuð frá í mars/apríl 2024 og 23. júní 2024 samþykkir alþingi að auka fjármagnið um einn milljarð inn í húsnæðiskerfið. Þegar þetta bréf er skrifað, 23. september 2024, er hreinlega ekkert að gerast og enginn getur svarað því hvort þessum milljarði verður skilað til HMS núna á næstu dögum eða þá á næsta ári (sem ég vona að gerist ekki).
Í lokin langar mig að endurtaka spurninguna: Hvenær á að opna fyrir hlutdeildarlánin aftur? Hvað eiga fyrstu kaupendur að bíða lengi eftir að þetta úrræði opnist?“