fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Fréttir

Starfsmaður Sjálfstæðisflokksins segir að Sigmundur Davíð og Bergþór geri ekki neitt í vinnunni

Ritstjórn DV
Föstudaginn 27. september 2024 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lilja Hrund Lúðvíksdóttir starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins segir í aðsendri grein á Vísi að þingmenn Miðflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason komi ekki miklu í verk í störfum sínum og að þeir geri nákvæmlega ekki neitt á þingi sem gagnist ungu fólki:

„Það er eðlilegt að gera þá kröfu að stjórnmálamenn, sem fá greitt fyrir starf sitt úr vasa skattgreiðenda, tali máli ungs fólks, séu með hugann við verkið og sinni vinnunni sinni. Starfsfólk sem mætir illa til vinnu og skilar litlu endist stutt á flestum vinnustöðum.“

Tilefni greinar Lilju Hrundar eru að hennar sögn þær fullyrðingar Antons Sveins McKee formanns nýstofnaðrar ungliðahreyfingar Miðflokksins að flokkur hans sé rétti valkosturinn fyrir ungt fólk. Lilja Hrund segir verk Bergþórs og Sigmundar Davíðs gefa annað til kynna en að Miðflokkurinn hafi hag ungs fólks að leiðarljósi. Raunar komi afskaplega lítið frá tvímenningunum:

„Raunar hefur hvorugur þingmaður Miðflokksins haft fyrir því að leggja fram eitt einasta þingmannamál það sem af er af þessu löggjafarþingi. Þá reynist ítarleit að málum sem snúa að hagsmunum ungs fólks á málaskrá Miðflokksins yfir kjörtímabilið í heild sinni ekki þung í vöfum. Málin eru enda ekki sérlega mörg.“

Lilja Hrund segir að á síðustu sex þingvetrum hafi Sigmundur Davíð eingöngu lagt fram frumvörp til laga um hækkun starfslokaaldurs opinberra starfsmanna og um skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu. Bergþór hafi síðast lagt fram frumvarp veturinn 2021-22 um sýklalyfjanotkun við matvælaframleiðslu.

Sjálfstæðismenn miklu duglegri

Hún segir þingmenn Sjálfstæðisflokksins mun duglegri að leggja fram frumvörp og þá ekki síst þau sem gagnist ungu fólki. Diljá Mist Einarsdóttir hafi lagt fram sex frumvörp á yfirstandandi þingi meðal annars um frádrátt frá tekjuskatti vegna barna og Berglind Ósk Guðmundsdóttir hafi lagt fram fimm frumvörp meðal annars til breytinga á lögum um fæðingarorlof vegna tímamarks á hækkun greiðslna.

Lilja Hrund bætir því við  að Sigmundur Davíð hafi ekki verið viðstaddur 62 prósent allra atvæðagreiðslna á Alþingi síðasta vetur og Bergþór í 35 prósent tilfella.

Lilja Hrund segir að allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vinni ötullega að málum sem snerta hag ung fólks og minnir á að hluti þingmanna og ráðherra flokksins séu milli þrítugs og fertugs sem sýni að flokkurinn treysti ungu fólki.

Lilja Hrund segir að lokum að Íslandi sé best borgið með því að stefna Sjálfstæðisflokksins fái að ráða för eins og raunin hafi verið undanfarna áratugi og að flokkurinn verði áfram við stjórnvölinn.

Grein Lilju Hrundar má nálgast hér.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin
Fréttir
Í gær

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng