Forsvarsmenn lífeyrissjóðsins Brúar eru ekki sáttir við að Hagkaup hafi opnað netsölu með áfengi. Hefur þessari óánægju verið miðlað beint til forstjóra Haga.
Lífeyrissjóðurinn Brú á tíunda hluta í verslunarrisanum Högum, eða það er að segja 9,62 prósent. Er Brú því fjórði stærsti hluthafinn í félaginu, á eftir lífeyrissjóðunum Gildi, LSR og Lífeyrissjóði verzlunarmanna.
Frá því að Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, tilkynnti um opnun netsölu með áfengi hefur breiðfylking heilbrigðisstétta og forvarnarsamtaka gagnrýnt það. Hefur meðal annars verið bent á að Hagar séu í meirihlutaeigu lífeyrissjóða, sem hafa flestir eða allir markað sér stefnu um samfélagslega ábyrgð í fjárfestingum.
Sendi fólk innan breiðfylkingarinnar bréf á sína lífeyrissjóði, það er þá sem eiga í Högum, til að inna þá um svör um hvort sátt ríki um opnun áfengissölu. Eða hvort viðkomandi lífeyrissjóður hyggist bregðast á einhvern hátt.
Brú er lífeyrissjóður starfsfólks sem starfar hjá sveitarfélögum. Eins og aðrir hefur sjóðurinn mótað sér stefnu um samfélagslega ábyrgð. Í henni segir:
„Lögð er áhersla á að félög, útgefendur og sjóðir sem sjóðurinn fjárfestir í fari eftir þeim lögum og reglum sem gilda um starfsemi þeirra. Komi upp tengsl eigna sjóðsins við óheilbrigða háttsemi eða brot á sviði umhverfismála, samfélagslegra málefna eða stjórnarhátta mun sjóðurinn beita sér fyrir því að brugðist sé við og gripið til viðeigandi ráðstafana í því skyni að tryggja að ekki komi til sambærilegra atvika aftur. Beri slíkar aðgerðir ekki fullnægjandi árangur er sala á viðkomandi eignarhlut tekin til skoðunar í heild eða að hluta og getur viðvarandi eða ítrekuð háttsemi eða brot útilokað einstakar fjárfestingar.“
Í svari til sjóðsfélaga segir Gerður Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Brúar, að fjallað hafi verið um áfengissölu Hagkaupa í stjórn sjóðsins.
„Stjórn sjóðsins harmar ákvörðun félagsins að hefja netsölu á áfengi og tekur um leið undir áskorun breiðfylkingar félaga heilbrigðisstétta til yfirvalda um að bregðast við lýðheilsuógn vegna netsölu áfengis,“ segir í bréfi Gerðar. „Sjóðurinn vill að þau fyrirtæki sem hann fjárfestir í sýni samfélagslega ábyrgð og vinni ekki í andstöðu við heilbrigðisstefnu landsins.“
Hefur þessum sjónarmiðum verið komið til Finns Oddssonar, forstjóra Haga. DV hefur ekki náð í Gerði vegna málsins.