DV greindi frá gagnrýni Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra og þingmanns flokksins, í gær þess efnis að vísað hefði verið til tiltekinna mála tengdum Benedikt sem komið hafa upp á undanförnum árum og reyndust syni hans, Bjarna Benediktssyni núverandi forsætisráðherra, erfiður ljár í þúfu á hans stjórnmálaferli.
Björn sár og reiður út í RÚV vegna fréttar um andlát Benedikts
Má þar nefna þegar ríkisstjórnin undir forystu Bjarna sprakk árið 2017 vegna meints trúnaðarbrests. Það var eftir að í ljós kom að Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hafði greint Bjarna, þáverandi forsætisráðherra, frá því að Benedikt faðir hans hefði skrifað meðmæli með beiðni manns um uppreist æru.
„Aðgerðasinnar meðal starfsmanna Ríkisútvarpsins eru sannfærðir um að leyfilegt sé að beita öllum brögðum til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Benediktsson forsætisráðherra. Virðing við látinn mann eða fjölskyldu hans skiptir engu í huga fólks sem telur eðlilegt að misnota stöðu sína í hugmyndafræðilegri baráttu. Að ýta undir sundrungu og ala á tortryggni í garð einstaklinga og fyrirtækja er nauðsynleg til að grafa undan borgaralegum gildum sem íslenskt samfélag byggist á,“ segir Óli Björn í pistli sínum í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir að frétt RÚV um andlát Benedikts hafi ekki ekkert átt skylt við fagleg vinnubrögð, virðingu eða hlutlægni. „Hún var rætin og illkvittin. Þegar persónuleg óbeit á stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum nær yfirhöndinni verður lágkúran mest,“ segir hann.
Hann segir að lög um Ríkisútvarpið, sem kveða meðal annars á um að vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð, hafi verið þverbrotin.
„Hér skal það fullyrt að fréttastofa ríkisins braut gegn flestum skyldum sínum samkvæmt ofangreindum töluliðum þegar greint var frá andláti Benedikts. Fréttastofan var ekki til fyrirmyndar um fagleg vinnubrögð og gætti hvorki sanngirni né hlutlægni. Í engu var skeytt um friðhelgi einkalífs þeirra sem um sárt áttu að binda vegna andláts heiðursmanns sem líklega rétti fleirum hjálparhönd en allir starfsmenn fréttastofu ríkisins hafa eða munu gera á sinni ævi,“ segir Óli Björn meðal annars.
Óli Björn segir að umrædd frétt sé ekki eina dæmið um hvernig „hugmyndafræði aðgerðasinna“ hafi eitrað starf ríkismiðilsins. Sem betur fer hafi ekki allir starfsmenn orðið „eitrinu að bráð“ því þar séu einnig starfandi dugandi og heiðarlegir fréttamenn og hugmyndaríkt dagskrárgerðarfólk.
„Aðgerðasinnarnir kasta hins vegar rýrð á það sem vel er gert. Á því bera engir aðrir ábyrgð en æðstu stjórnendur Ríkisútvarpsins,“ segir Óli Björn sem er ómyrkur í máli í lok greinar sinnar sem er nokkuð ítarleg.
„Fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um andlát sómamanns sem markaði djúp spor í atvinnusögu þjóðarinnar og var í forystu þeirra sem mótuðu eitt glæsilegasta sveitarfélag landsins er merki um ódrengskap sem fær að þrífast í skjóli lögþvingunar sem skattgreiðendur þurfa að sæta, til að fjármagna ríkisrekstur á fjölmiðlamarkaði. Fjölmiðill sem lýtur engu agavaldi og telur sig eiga öruggt skjól meðal meirihluta þingmanna gengur óhikað gegn eigin siðareglum og þverbrýtur lög sem um starfsemi hans gilda. Slíkur fjölmiðill getur ekki haldið því fram að hann sinni „fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu“. Er ekki kominn tími til fyrir skattgreiðendur að segja: hingað og ekki lengra?“