Breskur fuglaskoðari og ljósmyndari var á göngu í Norfolk héraði þegar hann fann minniskort með þúsundum fuglamynda. Reyndust myndirnar hafa verið teknar á Íslandi. Leitar hann nú eiganda kortsins.
„Fórst þú í frábæra fuglaskoðunarferð til Íslands í maí en týndir SD kortinu þínu með 3.700 fuglamyndum í Norfolk? Ég er með það!“ segir ljósmyndarinn Steve Gantlett í færslu á samfélagsmiðlinum X. En Gantlett er sjálfur mikill áhugamaður um fugla.
Færslan hefur fengið mikil viðbrögð og hefur verið deilt víða. Meðal annars á aðra samfélagsmiðla og á fréttasíður ljósmyndaáhugamanna. Er mörgum umhugað að eigandinn og minniskortið verði sameinuð á ný. Ekki er vitað hvort um sé að ræða Breta, Íslending eða einstakling af öðru þjóðerni.
Norfolk hérað er í austurhluta Englands. Kortið fannst nálægt þorpinu Snettisham, um 70 kílómetrum norðvestan við borgina Norwich.
Í umræðum nefna sumir að hugsanlega eigi eigandinn öryggisafrit af myndunum. Aðrir segja sniðugt að setja merkingu í textaskjali á minniskort ef þau skyldu tínast, það sé lygilega algengt að ljósmyndarar glati minniskortum.
„Mikið vona ég að þessar myndir komist á sinn stað,“ segir einn netverji.
Hafir þú glatað minniskorti með 3.700 fuglamyndum, teknum í maí. Þá getur þú nálgast kortið hjá Steve Gantlett sem rekur Cleybirds.com.