Þetta segir Árni Halldórsson Hafstað athafnamaður í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar varpar hann fram þeirri hugmynd að skyldusparnaði verði beitt til að slá á þenslu í hagkerfinu í stað gegndarlausra vaxtahækkana eins og raunin hefur verið síðustu misseri.
Árni vísar í nýlegt viðtal við fjármálaráðherra á Bylgjunni og segir hann hafa lýst eftir fleiri verkfærum til handa seðlabankastjóra í baráttu við verðbólguna. Það hafi leitt huga hans að grein sem hann birti í Morgunblaðinu í fyrra um sanngjarnari leið en vaxtahækkanir til að rjúfa vítahring verðbólgu og vaxta.
„Þar stakk ég upp á að seðlabankastjóri gæti beitt skyldusparnaði til viðbótar við vaxtahækkanir. Skyldusparnaður yrði settur á öll laun og sá sparnaður settur á vaxtareikning í eigu launþegans. Þannig mætti minnka peninga í umferð (líka af launum þeirra sem ekkert skulda), án þess að hækka vexti,“ segir Árni og bætir við að vextir færi eignir frá skuldurum til bankanna og hægja á húsnæðisuppbyggingu. Bendir hann svo á að skortur á húsnæði sé talinn ein af höfuðástæðum verðbólguvárinnar.
„Af 40 milljóna skuld hafa mánaðarlegar afborganir hækkað úr 200 í 300 þúsund á síðustu þremur árum. Ef farin hefði verið skyldusparnaðarleið í stað vaxtahækkana fyrir þremur árum væri staðan hugsanlega sú að þeir sem skulda 40 milljónir hefðu nú mánaðarlegar afborganir upp á 200 þúsund kr. og skyldusparnað upp á 100 þúsund. Ættu þeir 3,6 milljónir eftir þessi þrjú ár á skyldusparnaðarreikningi og gætu lækkað fasteignaskuldina um þá upphæð. Skuldlausir hefðu skyldusparnað upp á 100 þúsund mánaðarlega. Eftir þessi þrjú ár væri sparnaðurinn 3,6 milljónir sem þeir eiga til elliáranna.“
Árni segir að með þessari leið hefðu vextir ekki breyst og því ekki haft áhrif á vilja til húsbygginga. Skyldusparnaðarleiðin hefði meðal annars leitt til minni eignafærslu frá skuldurum til banka, lækkunar húsnæðisskulda almennings, hraðari minnkunar peninga í umferð og því hraðari lækkunar verðbólgu. Hún hefði líka leitt til meira framboðs á húsnæði, lægra húsnæðisverðs og lækkunar verðbólgu.
„Fólk getur tekið lán á lægri vöxtum, sem gerir því kleift að kaupa húsnæði og nýjar eignir, lenda ekki eingöngu í höndum fjármagnseigenda til útleigu. Er ekki helsta markmið Seðlabankans á verðbólgutímum að slá á þenslu í hagkerfinu, frekar en að fóðra banka og fjármagnseigendur? Skikkið mig frekar til að spara,“ segir hann.