Þórhallur rifjar upp að útideildin svokallaða hafi verið starfrækt á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkur á árunum 1976 til 1996.
„Útideildin var skipuð vel menntuðu og reyndu starfsfólki sem fór um götur bæjarins eftir að kvölda tók og hafði samband við unglinga á þeirra forsendum, þar sem þeir söfnuðust saman hverju sinni. Útideildin var því á ferð um allt höfuðborgarsvæðið. „Á þeirra forsendum“ merkir að starfsfólk útideildarinnar var ekki á ferð til að „koma upp um eða handtaka unglingana“ heldur til að hjálpa þeim eftir mætti, leiðbeina þeim, vera þeim til trausts og halds,“ segir Þórhallur og bætir við að alger trúnaður hafi ríkt á milli starfsfólks og unglinganna.
„Þetta vissu unglingarnir og þess vegna voru tengslin yfirleitt góð milli þeirra og starfsmanna deildarinnar. Oft björguðu starfsmenn útideildar unglingum úr ömurlegum og hættulegum aðstæðum. Á daginn rak útideildin opið hús í Tryggvagötu og þangað gátu unglingar leitað. Þar voru málin rædd í trúnaði og þeim bent á aðstoð og úrræði sem á þurftu að halda.“
Þórhallur segir að útideildin hafi þekkt ástandið í bænum vel og það sem kraumaði undir. Starfsmenn hafi getað varað samstarfsaðila við þegar óveðursský ofbeldis voru í uppsiglingu og sömuleiðis hafi þeir átt gott með að meta áhrif aðgerða, eða aðgerðaleysis, borgaryfirvalda á ástandið á götunni.
„Sjálfur starfaði ég um tíma í útideildinni og kynntist vel hversu þarft starf þar var unnið.
Af einhverjum ástæðum sem ég hef aldrei skilið var þetta frábæra starf lagt niður. Væri ekki ráð, eins og ástandið er núna, að endurreisa útideildina, svo koma megi unglingum til aðstoðar, veita þeim ráðgjöf, vinna gegn ofbeldi götunnar og kima á friði í „borg óttans“?“