Ferðamaður sem nú er staddur í Reykjavík segist helst vilja komast sem fyrst burt úr borginni eftir að hópur unglinga hafi ráðist að honum nærri Perlunni í gærkvöldi. Maðurinn segist steinhissa hann hafi talið Reykjavík eina af öruggustu borgum heims en nú óttist hann verulega um öryggi sitt. Hann greinir frá þessu á samfélagsmiðlinum Reddit.
Maðurinn segist hafa gengið úr miðborginni í Perluna um klukkan 17 í gær í þeim tilgangi að skoða safnið sem þar er. Þegar hann hafi yfirgefið bygginguna um klukkan 20 um kvöldið hafi hann ætlað að ganga til baka og ákveðið að fara eftir göngustígnum sem er við bygginguna að aftanverðu. Útsýnið þaðan yfir borgina sé fallegt og því hafi hann ákveðið að taka mynd. Þar skammt frá hafi hins vegar verið hópur 6-7 unglinga. Ferðamaðurinn telur mögulegt að unglingarnir hafi haldið að hann væri að taka mynd af þeim og því hegðað sér á þennan hátt:
„Þeir hentu 2 kílóa grjóti að mér og það munaði litlu að ég hefði fengið það í olnbogann.“
Maðurinn segist hafa snúið þegar í stað við til að leita skjóls í Perlunni og hafi tekið upp grjótið sem unglingarnir hentu. Hópurinn hafi þá veitt honum eftirför, þó varfærnislega í upphafi, og hent öðru grjóti að honum en ekki hitt heldur í það skipti. Unglingarnir hafi loks nálgast hann á mjög árásargjarnan hátt og logið því að hann hefði hent grjóti í þá. Þeir hafi reynt að hindra hann við að komast aftur inn í Perluna honum hafi þó tekist það en unglingarnir hafi æpt að þeir myndu bíða eftir honum fyrir utan.
Maðurinn segir að starfsfólk í Perlunni hafi tekið vel á móti honum þegar hann hafi hörfað þangað undan unglingunum. Yfirmaður hafi verið kallaður til, hringt hafi verið á leigubíl og honum fylgt út í hann. Miðað við frásögn mannsins var lögreglan ekki kölluð til en honum hafi heyrst það á starfsfólkinu að málið yrði líklega tilkynnt til lögreglu.
Maðurinn segist skrifa færsluna öðrum ferðamönnum á Íslandi til viðvörunar sérstaklega þeim sem séu eins og hann einir á ferð. Hann segist ranglega hafa talið að Reykjavík væri örugg borg:
„Mér finnst ég ekki vera öruggur við að ganga um borgina að kvöldi til og ég er í sannleika sagt spenntastur fyrir því að komast burt héðan. Ég velti því hins vegar fyrir mér … hvað er eiginlega málið? Ég hélt að Reykjavík væri þekkt sem öruggasta borgin fyrir ferðamenn.“
Í athugasemdum taka nokkrir einstaklingar fram að þeir hafi komið einir síns liðs til Íslands og upplifað mikið öryggi í Reykjavík. Vonast þeir til að það sem hafi komið fyrir þennan ferðamann sé undantekning.
Einn einstaklingur segist hafa komið til Íslands fyrir tveimur árum og orðið fyrir aðkasti unglingahóps í Reykjavík. Hann myndi þó ekki hika við að koma aftur. Reykjavík sé ekki alveg laus við glæpi en hann voni að hann sjálfur og ferðamaðurinn sem ritaði færsluna séu bara svona óheppnir. Eru mennirnir sammála um að líkur séu á því að unglingarnir hafi í báðum tilfellum hagað sér svona vegna einskærra leiðinda.