Viðskiptaráð hefur metið efnahagsleg áhrif 150 loftslagsaðgerða stjórnvalda. Úttektin leiðir í ljós að tvær af hverjum þremur aðgerðum hafa neikvæð efnahagsleg áhrif. Ráðið hvetur stjórnvöld til að endurskoða núverandi nálgun og meta kostnað loftslagsaðgerða áður en lengra er haldið.
Í tilkynningu frá Viðskiptaráði kemur fram að Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum um uppfærða aðgerðaáætlun sem inniheldur 150 aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Áætlunin er hryggjarstykkið í loftslagsstefnu íslenskra stjórnvalda, sem miðar að 55% samdrætti í losun fyrir árið 2030 og kolefnishlutleysi fyrir 2040, eins og segir einnig á vef Viðskiptaráðs.
Viðskiptaráð hefur nú metið efnahagsleg áhrif aðgerðanna, en þau hafa ekki verið metin af hálfu ráðuneytisins. Niðurstaðan er að af 150 aðgerðum hafa 97 neikvæð áhrif, 40 eru hlutlausar og 13 hafa jákvæð áhrif (mynd 1). Tvær af hverjum þremur aðgerðum hafa því neikvæð efnahagsleg áhrif.
Í matinu eru sex efnahagslegir áhrifaþættir metnir; tveir sem snúa að hinu opinbera (umsvif og útgjöld) og fjórir sem snúa að einkaaðilum (skattar/gjöld, takmarkanir/bönn, reglubyrði og verðmætasköpun). Samanlögð áhrif á áhrifaþættina sex ráða því hvort heildaráhrif aðgerðar teljist jákvæð, hlutlaus eða neikvæð.
Af neikvæðum áhrifum eru aukin opinber umsvif algengust, en 79 aðgerðir hafa þau áhrif. Undir aukin umsvif falla t.d. nýjar kvaðir um skýrslugerð, gagnaöflun eða greiningar og opinbert eftirlit. Þá fela 53 aðgerðir í sér aukin opinber útgjöld, 21 hafa aukna reglubyrði í för með sér, 15 aðgerðir fela í sér takmarkanir eða bönn og 8 fela í sér auknar álögur í formi skatta eða gjalda.
Þegar litið er til jákvæðra áhrifa þá styðja 20 aðgerðir við verðmætasköpun. Til viðbótar draga 5 aðgerðir úr sköttum og gjöldum, 5 minnka reglubyrði, 2 draga úr takmörkunum eða bönnum, 1 aðgerð dregur úr umsvifum og 1 aðgerð dregur úr útgjöldum. Heildaráhrif aðgerðanna velta síðan á því hvort vegi þyngra heilt yfir; jákvæðir eða neikvæðir áhrifaþættir.
Þegar litið er til einstakra aðgerða eru áhrif þeirra ólík (mynd 3). Af þeim sem hafa hvað neikvæðust heildaráhrif má nefna beitingu hagrænna lata á ökutæki knúin jarðefnaeldsneyti. Sú aðgerð hefur neikvæð áhrif á fjóra af sex áhrifaþáttum og er hlutlaus gagnvart öðrum.
Aðgerðir með hvað jákvæðust heildaráhrif eru einföldun leyfisveitingaferla í orkuvinnslu og aukin orkuöflun. Báðar aðgerðir styðja við verðmætasköpun, draga úr reglubyrði og sú fyrrnefnda dregur einnig úr umsvifum hins opinbera. Á meðfylgjandi mynd má sjá dæmi um áhrif nokkurra aðgerða til að fá betri mynd af áætluninni. Áhrif allra 150 aðgerða á áhrifaþættina sex má jafnframt finna í viðauka.
Aðgerðaáætlun stjórnvalda mun að óbreyttu hafa neikvæð áhrif á þróun lífskjara og efnahagslegra framfara í landi sem er þegar í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að umhverfisvænni verðmætasköpun.
Evrópusambandið hefur nýverið kynnt breytta nálgun í loftslagsmálum, þar sem áhersla er lögð á að lágmarka neikvæð efnahagsleg áhrif aðgerða til að tryggja samkeppnishæfni álfunnar. Framkvæmdastjórn ESB leggur nú áherslu á að greiða fyrir fjárfestingu, bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja og draga úr reglubyrði í sínum loftslagsaðgerðum.
Viðskiptaráð hvetur íslensk stjórnvöld til að endurskoða nálgun sína í loftslagsmálum með þetta í huga. Samkeppnishæfni er grundvöllur blómlegs atvinnulífs. Án þess er ekki hægt að fjárfesta í endurnýjanlegri orku, hagkvæmari innviðum eða grænni tækni.
Loftslagsaðgerðir stjórnvalda ættu að innihalda mat á efnahagslegum áhrifum svo hægt sé að bera saman kostnað og ávinning hverrar aðgerðar. Ráðið hvetur ráðuneytið til að bæta slíku mati við allar aðgerðir áður en lengra er haldið.