fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Gagnrýna harðlega framgöngu Guðmundar Inga í máli Yazans – „Með inngripi sínu var hann mögulega að ganga á hagsmuni drengsins“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 18. september 2024 12:30

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt heitasta deilumálið í íslensku samfélagi í dag er mál palestínska drengsins Yazan Tamimi. Til stóð að vísa honum og foreldrum hans úr landi til Spánar en Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra stöðvaði brottvísunina á síðustu stundu að beiðni Guðmundar Inga Guðbrandssonar félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og formanns Vinstri grænna. Andrés Magnússon og Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamenn gagnrýna framgöngu Guðmundar Inga í málinu en sá fyrrnefndi segir hana ekki þjóna hagsmunum Yazans sem haldinn er Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdómnum.

Þeir ræddu málið við Gísla Frey Valdórsson í hlaðvarpi hans Þjóðmál. Andrés segir að í umræðu um málið sé látið að ósekju eins og það væri vítisvist fyrir fjölskylduna að vera send til Spánar, þar bíði þeirra jafnvel betri þjónusta en á Íslandi:

„Eitt sem maður hefur heyrt svolítið í umræðunni sem mér finnst mjög einkennilegt. Það er látið svolítið eins og Spánn sé eitthvað hræðilegt land sem sé á jaðri siðmenningarinnar og það gangi ekki að senda veikt fólk þangað. Þetta heldur náttúrulega engu vatni. Spánn er öruggt land það er í Evrópusambandinu. Þetta er þróað land. Þetta er eitt af ríkari löndum heims. Þeir eru bara með alveg ágætis heilbrigðiskerfi.“

„Reyndar bara mjög gott heilbrigðiskerfi,“ skaut Gísli Freyr inn í.

Er enginn barnaspítali á Íslandi?

Andrés heldur síðan áfram með eilítið einkennilega staðhæfingu:

„Þar í landi til dæmis öfugt við Ísland eru barnaspítalar. Sérstakir barnaspítalar.“

Ekki er ljóst af hverju Andrés lítur ekki á Barnaspítala Hringsins sem sérstakan barnaspítala. Formlega séð er spítalinn ekki sjálfstæð stofnun heldur heyrir hann undir Landspítalann. Á vef Landspítalans segir um Barnaspítla Hringsins:

„Á Barnaspítalanum er veitt sérhæfð, fjölskyldumiðuð heilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri. Í allri þjónustu er áhersla lögð á að greina þarfir og auka vellíðan skjólstæðinga.“

Óleikur

Andrés minnist í kjölfarið á að á Spáni sé spítali sem hafi sérhæft sig í Duchenne-sjúkdómnum en Kærunefnd útlendingamála vísaði einnig til þessa spítala þegar hún hafnaði því að afturkalla brottvísun Yazans og fjölkyldu hans:

„Þar er meira að segja einn spítali sem hefur sérhæft sig í þessum hræðilega sjúkdómi sem drengurinn er haldinn.“

Andrés segir þetta merki um það að Guðmundur Ingi hafi gert Yazan óleik með því að biðja um að brottvísunin yrði stöðvuð:

„Guðmundur Ingi ætti kannski að velta því fyrir sér að með inngripi sínu var hann mögulega að ganga á hagsmuni drengsins. Þrátt fyrir að íslenska heilbrigðiskerfið sé frábært þá hefur enginn sýnt fram á að það sé hægt að gera eitthvað sérstakt fyrir drenginn hér.“

Feigðarflan

Björn Ingi segir að ekki hefði átt að flytja Yazan af Barnaspítala Hringsins ef ekki hafi staðið til að láta brottvísun hans úr landi fram ganga. Hann gagnrýnir ekki síður en Andrés framgöngu Guðmundar Inga í málinu:

„Setja lögreglufólkið í þessa ömurlegu stöðu og setja dómsmálaráðherrann í þessa ömurlegu stöðu. Vitandi það að niðurstaðan er síðan allt önnur það er eins og … ég veit ekki hvernig maður á að orða þetta. Það er eins og feigðarflanið sé orðið slíkt að þú bara náir ekki að rata á réttan stað og ef einhver sjálfstæðismaður heldur að fylgi flokksins lagist við svona uppákomur. Þar sem þetta blasir við þjóðinni. Öllum sem vilja sjá hvað gerist. Forystumenn VG segja það bara sjálf að þau hafi hlutast um að … þungi í umræðunni, erfitt og svo framvegis. Þannig að þau tryggja Sjálfstæðisflokknum, samstarfsflokknum sínum, fullan skaða en ætla að reyna að hafa pólitískan ávinning af máli sem varðar fatlaðan dreng. Manni finnst þetta alveg fyrir neðan allar hellur.“


 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum