„Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hin norræna velferðarstjórn Jóhönnu og Steingríms væri versta ríkisstjórn lýðveldissögunnar og taldi raunar (og vonaði) að um það sæti yrði aldrei raunveruleg keppni, en nú er ég ekki lengur alveg viss,“ segir hann.
Hann segir að það sé eiginlega sama hvert litið er nú um stundir, nær allt sé að færast til verri vegar undir nýjustu vinstristjórn Íslands, þeirri sem nú starfar undir forsæti Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins,“ segir Bergþór og nefnir nokkur dæmi máli sínu til stuðnings.
Í fyrsta lagi nefnir hann að orkuskortur sé nú orðinn regla hér á landi en ekki undantekning. Landsnet spáir viðvarandi orkuskorti til ársins 2029, eða til lokaárás næsta kjörtímabils. Í öðru lagi nefnir hann stöðu húsnæðismála og segir að hún hafi sennilega aldrei verið snúnari fyrir fyrstu kaupendur á meðan vextir og verðbólga eru í hæstu hæðum og lóðaskortur hamli uppbyggingu.
Hann heldur svo áfram:
„Stjórnlaus vöxtur ríkisútgjalda viðheldur miklum verðbólguvæntingum sem frestar því að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferli. Fyrirtæki og heimili landsins hafa því lifað við 9,25% meginvexti í rúmlega ár! Stjórnlaus útgjaldavöxtur og almennt virðingarleysi fyrir skattfé einkennir ríkisstjórnina sem beit svo höfuðið af skömminni nýlega með því að undirrita uppfærðan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins með útgjaldaplani upp á 311 milljarða. Upphæð sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar sögðu strax að myndi hækka. Svo skal ekki gleyma að ríkið tók á sig reikninginn fyrir rekstri borgarlínu Dags B. Eggertssonar í leiðinni.“
Bergþór segir síðan að við blasi „raunverulegt hamfaraástand“ í menntamálum þar sem lífsgæðum barna okkar er teflt í tvísýnu en ekkert gerist. Samt sé boðið upp á sérstakan ráðherra barnamála sem hann segir tala en gera ekkert.
„Svo eru það útlendingamálin, sem ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar ætlaði svoleiðis að taka föstum tökum og koma böndum á stjórnlaust ástand í þágu íslensku þjóðarinnar. En áður en maður gat blikkað auga ákvað dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að hafa óeðlileg afskipti af lögreglunni án nokkurrar lagaheimildar eða málefnalegrar ástæðu (eins og ráðherrann sagði sjálfur) – þegar hann stöðvaði brottflutning fólks sem dvelur á Íslandi þvert á lög og rétt, eftir úrlausnir á öllum stigum. Þar var í einu vetfangi vegið að trausti til lögreglunnar og því kerfi sem löggjafinn hefur þó sett um meðferð útlendingamála. Allt til að þóknast Vinstri-grænum, sem gerðu bara enn eina kröfuna,“ segir Bergþór.
Hann segir að það virðist vera alveg sama hvað VG gerir – Sjálfstæðisflokkurinn leggst flatur.
„Þá skipta engu stjórnarskrárvarin réttindi, eins og í hvalveiðimálinu, orkuþörf landsins eða lög, regla og jafnræði í útlendingamálum. Allt til að halda lífi í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og sósíalista – já og auðvitað Framsóknar. En þetta er jú allt að koma – það eru bara 367 dagar eftir af þessu bíói.“