Mbl.is greindi frá því í nótt og hafði eftir Alberti Lúðvígssyni, lögmanni fjölskyldunnar, að Yazan hafi verið vakinn þar sem lá sofandi í Rjóðrinu, hjúkunar- og endurhæfingardeild Landspítalans fyrir langveik börn, þar sem til stendur að senda hann úr landi.
Talsvert hefur verið fjallað um mál Yazans að undanförnu og yfirvofandi brottvísun. No Borders Iceland sögðu frá því í yfirlýsingu í ágústmánuði að lífslíkur þeirra sem ekki fá meðferð við sjúkdómnum sé um 19 ár og það eitt að vera fluttur upp í flugvél geti orðið honum að bana.
Í samtali við mbl.is segir Albert að hann hafi frétt að brottvísuninni um miðnætti þegar starfsfólk spítalans hafði samband við réttindagæslumann fatlaðra og tilkynnti honum að lögreglu hefði komið og sótt drenginn á spítalann.
Albert er ómyrkur í máli og segir að um harðneskjulega framkvæmd sé að ræða og forkastanleg vinnubrögð. Engin nauðsyn kalli á þessar aðgerðir af hálfu lögreglu.
Liðsmenn No Borders Iceland komu sér fyrir á Keflavíkurflugvelli í morgun til að mótmæla yfirvofandi brottflutningi Yazans.