fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Fréttir

Skemmdarverk á leikskóla í Hafnarfirði og fáni fjölbreytileikans tættur – „Fáni sem er táknmynd umburðarlyndis í samfélagi okkar vanvirtur“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 16. september 2024 17:15

Meðal annars var fáni fjölbreytileikans rifinn. Myndir/Víðivellir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skemmdarverk voru unnin á lóð leikskólans Víðivöllum í Hafnarfirði. Meðal annars var fáni fjölbreytileikans rifinn og tættur.

Starfsfólk leikskólans, sem er við götuna Miðvang í Norðurbæ Hafnarfjarðar, tók eftir skemmdarverkunum þegar það mætti til vinnu í morgun.

Hafði fáni fjölbreytileikans verið rifinn og hann hengdur í tvennu lagi á grindverk við fjölfarinn gangstíg við leikskólann. Þá höfðu þrjú borð verið rifin upp úr sandkassa yngstu deilarinnar og þeim dreift um lóðina.

Einnig hafði hluti girðingar, sem afmarkaði svæði þar sem kastali á að rísa, verið felldur niður.

Tilkynnt til lögreglu

Að sögn Hafnarfjarðarbæjar röskuðu skemmdarverkin ekki daglegri starfsemi á leikskólanum í dag. Þá hafi tjónið ekki verið mikið, það er á veraldlegum eignum. Búið er að tilkynna skemmdarverkin til lögreglunnar.

„Lögreglan fékk tilkynningu um málið enda mikilvægt að hún hafi yfirsýn yfir svona gjörðir og taki á þeim,“ segir Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðarbæjar. „Þetta eru ekki aðeins skemmdir á almannaeigum, heldur er fáni sem er táknmynd umburðarlyndis í samfélagi okkar vanvirtur. Við stöndum ekki hjá þegar vegið er að svona að mikilvægum gildum í samfélaginu okkar.“

Sífelldar árásir

Regnbogafánar og merki hafa verið skotmörk í mörgum skemmdarverkum undanfarið. Hefur talsfólk hinsegin samfélagsins talað um að þetta sé merki um bakslag í réttindabaráttunni.

Í ágúst voru skornir niður tveir regnbogafánar í Hveragerði. Annar þeirra hafði verið við hjúkrunarheimilið Ás en hitt við Hveragerðiskirkju. Fánarnir höfðu verið skornir niður um miðja nótt. Skömmu áður hafði verið skorinn niður regnbogafáni sem stóð fyrir utan fyrirtækið Rarik á Selfossi.

Í sama mánuði voru unnin spellvirki á regnbogagötuna í Hveragerði. Það er að merki nasista og ógeðfelld skilaboð til samkynhneigðra höfðu verið máluð yfir regnbogann.

Rétt eins og nú þá voru þessi tilfelli tilkynnt til lögreglunnar. En mál eins og þessi hafa verið rannsökuð sem hatursglæpir.

Fleiri mál hafa komið upp á undanförnum árum. Meðal annars á síðasta ári þegar regnbogafánar voru skornir niður og eyðilagðir við Safnahúsið á Egilsstöðum og Hjallakirkju í Kópavogi. Fána sem stóð við skrifstofur Fjarðabyggðar á Reyðarfirði var einnig stolið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Nýjustu refsiaðgerðir Biden gegn Rússlandi eru sagðar „gjöf“ til Trump

Nýjustu refsiaðgerðir Biden gegn Rússlandi eru sagðar „gjöf“ til Trump
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Formaður Ljósmæðrafélagsins hugsi eftir grínatriði Steinda, Sögu og Sigursteins

Formaður Ljósmæðrafélagsins hugsi eftir grínatriði Steinda, Sögu og Sigursteins