Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is ekkert benda til þess að faðirinn, sem grunaður er um að hafa banað 10 ára dóttur sinn í gærkvöldi, hafi numið stúlkuna á brott. Allt bendi til þess að þau hafi átt í eðlilegum samskiptum þennan dag og að faðirinn hafði heimild til að vera með dóttur sinni.
Grímur vissi ekki betur en að faðirinn hefði umgengnisrétt við dóttur sína en taldi móður stúlkunnar þó fara með forsjá.
Faðirinn var handtekinn af sérsveit lögreglustjóra í hrauninu gegnt Vatnsskarðsnámu við Krýsuvíkurveg á meðan lögregla leitaði stúlkunnar. Hún fannst svo samkvæmt ábendingu föðurins í hrauninu og reyndist látin.
Málið sé nú rannsakað sem manndráp en Grímur tekur fram að annað gæti þó komið í ljós síðar og upplýsingar geti komið fram sem bendi til einhvers annars en búist var við í upphafi. Vildi hann ekki gefa upp hvort að svo stöddu sé talið að um viljaverk hafi verið að ræða eða hvort að vopni hafi verið beitt.
Faðirinn hefur ekki tjáð sig mikið og vildi Grímur ekki gefa upp hvort formleg játning sé komin fram. Faðirinn hafi ekki áður komist í kast við lögin vegna ofbeldisverka og vissi Grímur ekki til þess að barnavernd hafi áður haft afskipti af honum.