Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg kemur fram að manni hafi verið bjargað í nótt í Sandvík á Austurlandi.
Rétt fyrir miðnætti í gær hafi björgunarsveitirnar Gerpir í Neskaupstað, Brimrún á Eskifirði og Ársól á Reyðarfirði verið kallaðar út vegna manns í Sandvík, sem er á skaganum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Maðurinn fékk verk fyrir brjóstið og treysti sér ekki til að ganga lengra. Á þessum slóðum er talsvert brattlendi og ekki fært ökutækjum.
Í tilkynningunni segir að töluvert klifur hafi verið fyrir björgunarfólk á vettvang – víkin brött og ekki fært nokkru ökutæki. Hægt hafi verið að fara á ökutækjum niður í Viðfjörð og ganga þaðan yfir á staðinn sem viðkomandi var á. Tveir félagar mannsins hafi lagt af stað á móti björgunarsveitum meðan einn beið með honum.
Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslu hafi einnig verið kölluð út á sama tíma og farið í loftið frá Reykjavík um tuttugu mínútur fyrir klukkan eitt í nótt.
Björgunarfólk hafi hitt þann hluta hópsins sem kom á móti þeim og haldið áfram niður að manninum á meðan félagar hans hafi haldið áfram að bílum sínum.
Mat björgunrsveita á vettvangi hafi verið að sökum brattlendis væri öruggast fyrir manninn að hann yrði hífður um borð í þyrlu, frekar en að bera hann á börum langa leið. Um tuttugu mínútur fyrir þrjú í nótt hafi þyrla Landhelgisgæslunnar verið yfir staðnum og tekið manninn um borð og flogið inn á Neskaupstað.
Björgunarfólk snéri til baka ásamt félögum mannsins og var aðgerðum lokið rétt fyrir klukkan sex í morgun.
Myndband frá björgunaraðgerðunum má sjá hér fyrir neðan.