Skaðabótamál Margrétar Friðriksdóttur gegn Icelandair hefur velkst í nokkurn tíma í dómskerfinu en framundan er fyrirtaka í málinu. Lögmaður Margrétar, Gísli Kr. Björnsson, hefur lagt fram bókun þess efnis að settur dómari í málinu, Bergþóra Ingólfsdóttir, víki sæti. Ástæðan eru meint hagsmunatengsl við Barböru Björnsdóttur héraðsdómara, sem hefur kært Margréti fyrir meiðyrði.
Mál Margrétar gegn Icelandair er tilkomið vegna atviks sem átti sér stað 23. september árið 2022 og var nokkuð fjallað um það í fjölmiðlum. Í stefnu Margrétar kemur fram að henni hafi verið gert að vista handfarangurstösku sína í neðra farangursrými farþegavélar þar sem öll geymslurými yfir sætum væru yfirhlaðin. Að öðrum kosti gæti hún ekki farið um borð. Þegar Margrét kom síðan að sætaröð sinni í vélinni sá hún að gnægð af farangurplássi var laust. Átti hún í orðaskiptum við flugfreyju um þetta sem sagði henni jafnframt að það væri grímuskylda í fluginu. Orðaskiptum þeirra lauk með því að Margréti var vísað frá borði og lögregla kölluð til.
Í stefnu Margrétar segir að með þessari ákvörðun flugfreyjunnar hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu og um hafi verið að ræða hreina geðþóttaákvörðun.
Í stefnunni er rakið að flugfreyjan hafi tjáð Margréti að hún þyrfti að yfirgefa flugvélina og hafi kallað til lögreglumenn sem leiddu Margréti frá borði. Ræddi Margrét áður um þetta við flugstjórann en hann sagðist ekkert geta gert, flugfreyjurnar réðu.
Áfangastaður flugsins var München í Þýskalandi en þaðan ætlaði Margrét að fljúga til Rússlands og vinna að heimildarmynd. Verkefnið fór í súginn vegna brottvísunarinnar frá borði.
Skaðabótakröfur Margrétar gegn Icelandair nema 24 milljónum króna.
Snemma árs 2023 var Margrét sakfelld í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hótanir í garð baráttukonunnar Semu Erlu Serdaroglu. Þeim dómi var síðan snúið við í Landsrétti og Margrét sýknuð. Í kjölfar dómsins í Héraðsdómi, sem Barbara Björnsdóttir kvað upp, birti Margrét ummæli um Barböru á Facebook-síðu sinni sem urðu til þess að Barbara kærði hana til lögreglu fyrir meiðyrði. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði Margréti síðan í júní síðastliðinum fyrir ærumeiðingar, ærumeiðandi aðdróttanir og fyrir að hafa haft í frammi ærumeiðandi aðdróttanir gegn betri vitund.
Margrét telur að dómarinn í máli hennar gegn Icelandair sé vanhæfur vegna tengsla sinna við Barböru, sem hefur kært hana í meiðyrðamálinu. Lögmaður Margrétar, Gísli Kr. Björnsson, segir nýlega dómafordæmi styðja kröfu um að dómarar víki sæti og bendir hann á að Héraðsdómur Reykjavíkur sé ekki stór vinnustaður.
„Ég hef það ekki fyrir vana að reka mál í fjölmiðlum en mér finnst sjálfsagt hér að gera grein fyrir þessari kröfu,“ sagði Gísli er DV hafði samband við hann. „Ég er nýtekinn við þessu máli og þetta er nú svona það fyrsta sem ég rek augun í. Ég lagði fram bókun um þetta á þriðjudaginn, þ.e. 10. september, og krafan er um að dómari víki sæti vegna vanhæfis þar sem dómarinn deilir vinnustað með öðrum dómara, konu sem á í meiðyrðamáli við Margréti.“
Margrét afhenti blaðamanni þessa bókun lögmannsins en þar segir meðal annars:
„Í eðli sínu er Héraðsdómur Reykjavíkur ekki stór vinnustaður, með 25 dómara og 31 almennan starfsmann innanborðs, sem býður enn frekar upp á tengslamyndun samstarfsfólks. Í því skyni má nefna að oft er dómurinn fjölskipaður, sem kallar á nánari samskipti en ella, auk annarra tilvika sem kalla á náin samskipti. Því er ekki loku fyrir það skotið að tengsl séu á milli dómarans í máli þessu og dómarans Barböru Björnsdóttur sem dragi óhlutdrægni dómarans í garð stefnanda í efa. Eftir atvikum gilda því sömu sjónarmið um aðkomu allra annarra dómara við dómstólinn að málinu.
Þá verður að nefna að dómarar á Íslandi eru aðilar að félagsskap í Dómarafélaginu, sem og í Dómstólasýslunni, sem m.a. hefur á sinni könnu að samhæfa reglur og störf dómar við alla dómstóla á Íslandi, þ.m.t. héraðsdómara sem eru 42 talsins. Þar að auki tilnefnir dómstólasýslan einn aðila sem skipaður er í svokallaða dómaranefnd, og kemur þannig að skipan allra dómara við héraðsdómstólana. Ljóst er að félagsskapur af framangreindu tagi getur kallað á að tengsl myndist milli dómara, sem dregið getur óhlutdrægni þeirra í vafa. Sú málsástæða ein skapar því nægilega hættu gagnvart skilyrðinu um óhlutdrægni dómara í málum sem snerta aðra dómara, sbr. úrskurð Landsréttar í málinu nr. 337/2024 og dóms Hæstaréttar í málinu nr. 16/2024.“
Þess skal geti að Gísli hefur enga aðkomu að meiðyrðamálinu sem rekið er gegn Margréti og þekkir það bara úr fjölmiðlum. „Ég hef enga skoðun á því máli og vissulega tengist dómarinn í þessu máli því máli ekki neitt en hún tengist málsaðila í því máli þeim megin. Og við erum ekki að tala þar um eitthvert lítið mál á borð við fjársekt eða umferðarlagabrot, heldur er þetta meiðyrðamál, slíkt varðar tjáningarfrelsi og það er hornsteinn lýðræðisins. Þetta varðar mannréttindi Margrétar, sem er ekki lítið mál, og þeim mun meiri ástæða er til að samstarfsaðilar þessarar konu víki af sjálfdáðum.“
Gísli reifar í bókun sinni þá skoðun sína að Héraðsdómur Reykjavíkur sé lítill vinnustaður með miklu samneyti starfsmanna og hann leggur ríka áherslu á þetta atriði í viðtali við DV:
„Það starfa 24 dómarar við dóminn og um 30 starfsmenn, svo þetta er lítill vinnustaður. Þeir sitja auk þess oft saman í fjölskipuðum dómum og það eru mikil samskipti á milli þeirra, t.d. á kaffistofunni og jólaboðum, svona eins og gengur og gerist á öðrum vinnustöðum.“
Gísli bendir á að hann vinni sjálfur á litlum vinnustað og hann myndi ekki treysta sér til að dæma í málum vinnufélaga sinna né raunar taka að sér mál þeirra. Hann sé þó ekki undir jafnsterkum vanhæfiskröfum og héraðsdómarar.
DV spyr Gísla hvort hann og Margrét gætu sætt sig við dómara úr öðru umdæmi, t.d. Héraðsdómi Reykjaness. Hann svarar því neitandi: „Dómarar deila tvennum félagsskap, þeir sitja saman í Dómstólasýslunni og þeir eru þeir saman í Dómarafélaginu. Þetta eru hagsmunasamtök, dómarar eiga aðkomu að valnefnd sem velur dómara, þeir taka þannig þátt í því að velja hver annan í embætti.“
En hvernig dómari getur þá dæmt í málinu?
„Í mínum huga væri það bara ad hoc dómari, þ.e.a.s. dómari sem er sérstaklega skipaður, það getur verið dómari á eftirlaunum eða lögmaður.“
Gísli segir gífurlega mikilvægt að hlutleysi sér tryggt sem og ásjóna hlutleysis. „Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar, lýsir því ágætlega í grein frá árinu 1997 við hvaða aðstæður dómari er vanhæfur. Það er þegar sýnt er að trausts- og öryggissjónarmiðum geti verið teflt í tvísýni. Almenningur verður að geta treyst því að dómari dæmi hlutlaust og öryggi borgaranna er fólgið í því að dómstóllinn sé hlutlaus.“