Þorvaldur Þórðarson, prófessor og eldfjallafræðingur, segir þetta í samtali við Morgunblaðið í dag. Hann segir að vissulega sé um ólíklega sviðsmynd að ræða en möguleikinn sé engu að síður til staðar.
„Við getum ekki fullyrt hvort gosstöðvarnar eru að færast norðar, en það eru vísbendingar um að virknin sé að færast norður fyrir vatnaskil. Ef gossprungan opnast á svipuðum slóðum og gígarnir sem voru virkir sem lengst í síðasta gosi, þá er greið leið fyrir hraunrennslið niður að Reykjanesbraut. Nýja hraunið auðveldar flæði á hraunrennslinu í þessa átt, gjósi næst á þessum slóðum. Verstu sviðsmyndir sýna að hraunrennsli geti náð Reykjanesbraut á innan við einum degi eða jafnvel skemmri tíma,“ segir Þorvaldur við Morgunblaðið.
Hann segir að viðbragðsaðilar þurfi að hugsa fyrir því hvernig koma eigi umferð til Keflavíkurflugvallar ef allt fer á versta veg. Bendir hann á að leiðin í gegnum Grindavík sé ekki góð og Reykjavíkurflugvöllur beri ekki þá umferð sem fer um Keflavík.
„Þetta er stórt mál og stórar spurningar sem tengjast þessu, sem hefur ekki verið svarað enn þá þannig að hægt sé að taka ákvarðanir um hvernig bregðast eigi við,“ segir hann við Morgunblaðið í dag.