„Hvernig endar þetta?“ er spurningin sem rússneska elítan spyr sig nú að sögn William Burns, forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar CIA.
Það er kannski engin furða því Úkraínumenn ráða nú yfir 1.300 ferkílómetrum af Kúrsk. En stóra spurningin er hvað þeir ætla sér með þetta rússneska landsvæði? Síðan er auðvitað spurning hvernig þetta gengur hjá þeim?
Sérfræðingar hafa bent á sex þætti sem koma að þeirra mati til greina sem takmarkið með innrás Úkraínumanna. Þeir eru: að koma upp „stuðpúða“ svæði í Rússlandi til að gera Rússum erfiðara fyrir við að ráðast á Úkraínu, að hafa eitthvað til að semja um, til að fá Vesturlönd til að heimila víðtækari notkun á vopnum frá þeim, að koma upp um blekkingar Pútíns, til að þvinga Rússa til að flytja hersveitir til eða til að þrýsta á um fangaskipti.
Út frá sumum þessara þátta er hægt að segja að innrásin hafi tekist vel en það eru þó takmörk á hversu langt sú gleði nær að sögn Olivier Schmitt, sem er prófessor við Center for War Studies við Syddansk Universitet í Danmörku.
Í samtali við Jótlandspóstinn sagði hann að innrásin væri „djarft spil“ og að innan nokkurra vikna komi í ljós hvort hún sé hugsanlega hluti af því að ná ákveðnu markmiði sem sé enn haldið leyndu. Undir vetrarbyrjun telur hann að það komi endanlega í ljós hvert markmiðið var.
Stríðsaðilarnir virðast ekki enn hafa gert upp við sig hvernig þeir tala um innrásina í Kúrsk. Fyrir nokkrum dögum sagði Oleksandr Syrskyy, yfirmaður úkraínska hersins, í samtali við CNN að innrásin hafi heppnast vel. Hún dragi úr hættunni á sókn Rússa og komi í veg fyrir að þeir geti gripið til aðgerða. Einnig hafi stríðið verið flutt inn á rússneskt landsvæði svo Rússar finni fyrir því sem Úkraínumenn finna fyrir daglega. Hann hefur einnig játað að aðalmarkmiðið með sókninni hafi ekki náðst. Úkraínumenn tóku Rússa í bólinu með innrásinni en þeir brugðust ekki við með því að flytja hersveitir frá Donetsk til Kúrsk.
„Virkaði þetta? Nei,“ sagði Pútín þegar hann ræddi við skólabörn í Síberíu nýlega og montaði sig af að her hans hefði þess í stað hert sóknarþunga sinn í Donetsk.