Byggðarráð Skagafjarðar hefur samþykkt að áfrýja dómi þar sem sveitarfélagið var fundið sekt um að brjóta á tónlistarkennurum. Fulltrúar minnihlutans segja þetta sorglega mannauðsstefnu og frekar ætti sveitarfélagið að biðja tónlistarskólakennarana afsökunar á brotunum.
Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi sveitarfélagið Skagafjörð til að greiða þremur tónlistarskólakennurum bætur vegna vangoldinna launa á þeim tíma sem þeir keyrðu til og frá starfsstöðva, á Sauðárkróki, Hólum, Varmahlíð og Hofsósi.
Kennurunum voru dæmdar 2,7 milljónir króna, 2,1 milljónir og 1,9 milljónir auk 900 þúsund króna málskostnaðar.
Að mati sveitarfélagsins hafi hins vegar verið ósannað að kennararnir þrír hefðu unnið fullan vinnutíma og með því að rukka ekki inn aksturstímann hefðu þeir sýnt af sér tómlæti. Dómari taldi þó að kennararnir hefðu uppfyllt vinnuskyldu sína.
Málið var tekið fyrir á fundi byggðarráðs í gær, 11. september og var það samþykkt með tveimur atkvæðum meirihlutaflokkanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að áfrýja málinu til Landsréttar.
Sögðu þeir mikilvægt að fá umfjöllun á æðra dómstigi um nokkur veigamikil atriði er varði ágreininginn. Meðal annars um túlkun á tilgreindum ákvæðum kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags tónlistarskólakennara um akstur milli starfsstöðva.
Einnig um hin skýru fyrirmæli sem skólinn gaf á sínum tíma um að skipuleggja bæri starfsemi skólans og vinnutímafyrirkomulag starfsmanna með þeim hætti að aksturinn rúmaðist ætíð innan vinnuskyldu.
„Að mati meirihluta byggðarráðs er hér um fordæmisgefandi mál að ræða sem kann einnig að varða aðra tónlistarskóla þar sem þannig háttar til að um akstur er að ræða að hálfu kennara á milli starfsstöðva tónlistarskóla innan sama sveitarfélags,“ segir í bókun fulltrúanna Gísla Sigurðssonar og Einar Eðvalds Einarssonar.
Fulltrúar minnihlutans eru óánægðir með þessa áfrýjun og bókuðu um málið í þá veru. Annars vegar Álfhildur Leifsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna sem sagði að enginn ágreiningur væri um að aksturinn hefði átt sér stað. Málið snerist um hvort að kennararnir ættu rétt á að fá greitt fyrir það. Í dóminum hefði komið fram að skólastjórinn hefði sagt að það hefði ekki verið mögulegt að koma akstrinum fyrir innan 1.800 tíma vinnuskyldu.
„Samkvæmt þeim dómi sem féll á hendur sveitarfélagsins í Héraðsdómi Norðurlands vestra er ljóst að Skagafjörður braut á kjarasamningi tónlistarkennara og er skylt að greiða bætur vegna þess. Að áfrýja þeim dómi til Landsréttar er bæði kostnaðarsamt fyrir sveitarfélagið en líka afskaplega sorgleg mannauðsstefna,“ sagði Álfhildur í bókuninni. „Ætti sveitarfélagið að sjá sóma sinn í því að gera upp vangreidd gjöld við þau sem um ræðir og biðja þau afsökunar á broti á kjarasamningum.“
Jóhanna Ey Harðardóttir, fulltrúi Byggðalistans, bókar á svipaða vegu. Skýrt sé kveðið á í dóminum að tónlistarskólakennararnir hafi uppfyllt vinnuskyldu sína og að aksturinn hafi ekki rúmast innan 1.800 tíma kennsluskyldunnar.
„Mér þykir miður að svo sé komið að kennarar tónlistarskólans þurfi að sækja rétt sinn fyrir héraðsdómi og að ekki hafi verið nýtt heimild kjarasamnings um að semja sérstaklega um hvernig greitt sé fyrir akstur milli starfstöðva,“ lét Jóhanna bóka.