Morgunblaðið fjallar um þetta í dag og vísar í gögn frá Motus þar sem fram kemur að alvarleg vanskil hafi aukist um 20,1% hjá einstaklingum það sem af er ári samanborið við 6,5% hjá fyrirtækjum.
Þetta stangast á við það sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á síðasta kynningarfundi peningastefnunefndar Seðlabankans á dögunum þegar nefndin ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%.
„Það er líka mjög mikilvægt að geta beitt peningastefnunni af hörku eins og við höfum verið að gera án þess að það komi heimilum í vandræði, eða það hefur allavega ekki gerst núna,“ sagði Ásgeir á fundinum eins og fjallað var um á vef Vísis þann 21. ágúst síðastliðinn.
Motus hefur góða yfirsýn yfir vanskil einstaklinga og fyrirtækja og nefnir Brynja í Morgunblaðinu að fyrirtækið sjái stærri mynd en ef bara er horft á fasteignalánin. „Við erum líka alltaf að horfa á vanskil í rauntíma og sjáum breytingar töluvert á undan þeim sem eru að horfa á birtar hagtölur,“ segir Brynja við Morgunblaðið í dag.