„Ég skal seint hætta að staglast á því að græðgi er fíknisjúkdómur og menn svífast einskis þegar upphæðir skipta milljörðum. Að fyrrverandi forseti Alþingis hafi farið að vinna fyrir Norðmenn meðan stóllinn hans á þingi var enn volgur, með öll sín tengsl og lykla að dyrum allra sem skipta máli, er blettur á Alþingi Íslendinga. Alveg er það makalaust að við höfum ekki burðugra fólk sem við getum treyst fyrir auðlindum okkar,“ segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens í nýrri skoðanagrein á Vísir.is.
Að mati Bubba er græðgi skæður fíknisjúkdómur sem veður uppi í íslensku samfélagi. Hann er afar ósáttur við þróunina í fiskeldi og stórtæka starfsemi norskra fyrirtækja í sjókvíaeldi. Segir hann villta íslenska laxinn vera í stórhættu vegna þessarar starfsemi. „Landeldi er framtíðin, það vita allir, og væri óskandi að af því yrði,“ segir Bubbi og beinir síðan spjótum þínum að Matvælastofnun:
„Matvælastofnun er svo sér kapítuli í sambandi við sjókvíaeldið. Það er með ólíkindum hvernig sú stofnun hefur hagað sér gagnvart Norðmönnum. Aðgerðaleysi hennar hefur nú þegar skaðað laxveiðiár landsins vegna þess að hún hefur snúið blinda auganu að nánast öllum þeirra axarsköftum og látið sem þeim komi þau ekki við en benda á einhvern annan sem endurtekur leikinn, það sé annar sem á að hirta laxeldissóðana til hlýðni. Og maður spyr sig: er þráður á milli þeirra sem ráða yfir málaflokknum og Matvælastofnunar? Maður hlýtur að spyrja sig hvort ekki sé eitthvað rotið þarna. Við hefðum í það minnsta getað fengið milljarða fyrir sjókvíaeldið, en nei er svarið, við gáfum þeim auðlindina.
Ég skal seint hætta að staglast á því að græðgi er fíknisjúkdómur og menn svífast einskis þegar upphæðir skipta milljörðum. Að fyrrverandi forseti Alþingis hafi farið að vinna fyrir Norðmenn meðan stóllinn hans á þingi var enn volgur, með öll sín tengsl og lykla að dyrum allra sem skipta máli, er blettur á Alþingi Íslendinga. Alveg er það makalaust að við höfum ekki burðugra fólk sem við getum treyst fyrir auðlindum okkar.“
Bubbi segir að ráðamenn hafi gefið álverum fossa landsins, Norðmönnum firðina og þeir ætli að svipta hálendið tign sinni. Greinina má lesa hér.