Lögregla stöðvaði mann í miðborginni í gærkvöld við almennt umferðareftirlit. Við þau afskipti blasti við lögreglumönnum skefti á skotvopni og var maðurinn þá samstundis handjárnaður. Reyndist skotvopnið vera gasskammbyssa. Við frekari leit í bifreiðinni fundust meint fíkniefni, stór hnífur og skotfæri í gasskammbyssuna. Maðurinn reyndist einnig vera ölvaður við akstur og var hann handtekinn í þágu rannsóknar málsins.
Frá þessu segir í dagbók lögreglu. Einnig segir frá því að tilkynnt var um mann sem hafði valdið eignaspjöllum á hóteli í miðborginni. Við komu lögreglu á vettvang var töluverður hópur í kringum manninn og æsingur. Brást maðurinn illa við afskiptum lögreglu og streittist á móti handtöku. Við öryggisleit á honum fannst höggvopn og nokkuð af fíkniefnum. Var maðurinn vistaður í klefa í þágu rannsóknar málsins.
Lögregla var send með sjúkraliði á slysadeild vegna reiðhjólaslyss. Talið er að hjólreiðamaðurinn hafi viðbeinsbrotnað.
Alls voru 74 mál bókuð í kerfum lögreglu síðasta sólarhringinn. Á tímabilinu voru átta ökumenn handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.