fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Strætó biður eigendur sína aftur um meiri pening

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 6. september 2024 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Strætó b.s. hefur óskað eftir sérstöku fjárframlagi frá eigendum félagsins, sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Nemur heildarupphæðin 188 milljónum króna. Þetta er í annað sinn á innan við ári sem að Strætó óskar eftir auka fjárframlagi frá sveitarfélögunum.

Í lok síðasta árs óskaði Strætó eftir því að sveitarfélögin leggðu því til tæplega 352 milljónir króna til að greiða skaðabætur og vexti vegna dómsmáls sem félagið tapaði en dómsmálið var til komið vegna útboðs.

Útsvarsgreiðendur þurfa að borga á fjórða hundrað milljónir vegna klúðurs Strætó

Öll sveitarfélögin urðu við beiðni Strætó og var greiðslum skipt eftir íbúafjölda. Reykjavíkurborg greiddi mest, um 199 milljónir króna.

Í þetta sinn óskar Strætó eftir fjárframlagi vegna hækkunar kostnaðar við aðkeyptan akstur.

Í minnisblaði sem undirritað er af Jóhannesi Rúnarssyni framkvæmdastjóra Strætó segir að samningar við núverandi verktaka um aðkeyptan akstur hafi runnið út 15. ágúst. Nýtt útboð hafi verið fyrr á árinu vegna þess hluta sem þessir samningar nái til. Tveir aðilar hafi skilað inn tilboðum. Fyrir hafi legið að miðað við kostnaðaráætlun útboðs að tilboðsverð yrði hærri en fjárhagsáætlun ársins 2024 hafi gert ráð fyrir. Á eigendafundi Strætó í apríl hafi því verið beint til stjórnar félagsins að óska eftir því við sveitarfélögin að þau myndu fjármagna þann mismun sem væri fyrirséður á samþykktri fjárhagsáætlun ársins 2024 vegna aðkeypts aksturs og endanlegri niðurstöðu samkvæmt útboði.

Þessi vibótarkostnaður er eins og áður sagði áætlaður 188 milljónir króna. Ekki er óskað er eftir öllu framlaginu þegar í stað heldur miðað við að það verði greitt á nokkrum mánuðum.

Mest yrði hlutdeild Reykjavíkurborgar, 116.092.149 krónu,r en hin sveitarfélögin á höfuðborgarvæðinu myndu skipta afganginum á milli sín í samræmi við íbúafjölda.

Frekari hagræðing og nýtt félag

Þessi beiðni Strætó var tekin fyrir á fundi borgarráðs Reykjavíkurborgar í gær. Í umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs kemur meðal annars fram að lokatilboðin í umræddu útboði hafi verið eitt prósent undir kostnaðaráætlun en þó er ekki útskýrt nánar hvers vegna mismunur var fyrirséður á henni og fjárhagsáætlun Strætó fyrir árið 2024. Í umsögninni segir að á eigendafundi í júlí því hafi verið beint til stjórnar Strætó að lágmarka viðbótarfjármagnsþörf frá eigendum, sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, vegna ársins 2025 með því að skoða möguleika á meðal annars hagræðingu og gjaldskrárbreytingum.

Í umsögninni er þessum samningi, sem varð til þess að Strætó óskar nú eftir viðbótarfjárframlagi, lýst nánar en hann var gerður við fyrirtækin Hagvagna og Kynnisferðir. Samingurinn tók gildi 15. ágúst síðastliðinn og segir í umsögninni að kostnaðarauki hans nemi samtals 501 milljón króna á ársgrundvelli á verðlagi ársins 2024.

Í umsögninni er vísað til nýlegrar uppfærslu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins á Samgöngusáttmálanum. Samhliða því hafi verið gert samkomulag um að ríkið komi að rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með því að greiða 33 prósent af heildarkostnaði, að frádregnum heildartekjum. Nýju félagi verði komið á fót sem verði í eigu ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Nýja félagið eigi að hefja rekstur ekki síðar en 1. janúar 2025. Vegna þessara áforma ríki ákveðin óvissa um framlög sveitarfélaganna til reksturs Strætó.

Eigið fé búið

Í umsögninni er enn fremur minnt enn einu sinni á að rekstur Strætó sé þungur. Eigið fé félagsins sé uppurið og orðið neikvætt. Stjórn þess telji þó ekki ráðlegt að fleyta þeim kostnaðarhækkunum, sem bón Strætó snýr að, út í gjaldskrár að sinni. Stöðugt sé þó leitað leiða til hagræðingar.

Fjármála- og áhættustýringarsvið segist ekki leggja mat á það hvort unnt sé að fara aðrar leiðir til fjármögnunar á þessum viðbótarkostnaði en í ljósi gildandi fjárhagsáætlunar og neikvæðrar stöðu eigin fjár Strætó sé lagt til að félaginu verði veitt þetta viðbótarfjármagn sem það óskar eftir. Reykjavíkurborg eigi þó að gera þann fyrirvara að hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samþykki að greiða sinn hluta.

Með vísan til þessarar umsagnar og með þeim fyrirvara sem þar er lagður til lagði Einar Þorsteinsson borgarstjóri til á fundi borgarráðs að Reykjavíkurborg verði við þessari beiðni Strætó um viðbótarfjárframlag.

Niðurstaða borgarráðs var að vísa málinu til borgarstjórnar. Miðað við opinberar fundargerðir ráða og nefnda eiga önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eftir að taka málið fyrir, að undanskildu Seltjarnarnesi en bæjarráð hefur lagt það til við bæjarstjórn að orðið verði við beiðni Strætó en hlutur bæjarins nemur tæplega 3,4 milljónum króna.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í borgarráði gagnrýndi ástand mála hjá Strætó harðlega í bókun sinni á fundinum í gær, en eins og áður segir er þetta í annað sinn á innan við ári sem að félagið óskar eftir viðbótar fjárframlagi frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu:

„Það er auðvitað ömurlegt að Strætó þurfi sífellt að koma aftur og aftur til eigenda sinna og biðja um aukið fjármagn út af allskonar atriðum, í þetta sinn vegna útboðs aðkeypts aksturs.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Í gær

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?