Stærstu fjórar matvörukeðjur landsins lækkuðu verð milli ágústbyrjunar og ágústloka samkvæmt nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ. Bónus lækkaði verð á 19% þeirra vara sem til skoðunar voru, Krónan og Nettó 9% og Hagkaup 3% en Prís er enn ódýrasta verslunin. Verð voru athuguð dagana fram að 11. ágúst og dagana fram að 29. ágúst.
Tekið er fram að í lok samanburðartímabilsins hafi heilsudagar hafist í Nettó og fór hlutfall vara á lægra verði í þeirri keðju upp í 32% þegar þeir hófust.
„Þótt Bónus hafi lækkað verð á flestum vörum hefur meðalverð þar lækkað minnst af þessum fjórum verslunum, eða um 0,3. Nettó hefur lækkað mest, eða um 0,8 (og um 6,1% eftir byrjun afsláttardaga) þegar allar verðbreytingar í samanburðinum voru skoðaðar. Þetta skýrist að hluta af krónu-fyrir-krónu verðstríði við Prís í t.d. mjólkur- og kjötvörum,“ segir í tilkynningu verðlagseftirlits ASÍ.
Fram kemur í að ekki sé um afmarkaða lækkun að ræða heldur hafi vörur í öllum flokkum allra fjögurra verslana lækkað. Eini flokkurinn sem var rétt yfir núlli var flokkurinn kjöt og fiskur í Nettó áður en heilsudagar hófust, en hann hafði hækkað um 0,3%. Eftir upphaf heilsudaga var sá flokkur líka kominn undir núll, í 0,3% lækkun.
Tekið er fram í tilkynningunni að tímabilið sem um ræðir fangi opnun hinnar nýju lágvöruverslunar Prís. Milli opnunardagsins 17. ágúst og 5. september hefur verð þar lækkað á 264 vörum (15% af úrvalinu sem til skoðunar var) og hækkað á aðeins 6 vörum, eða 0,3% af þeim sem skoðaðar voru.
Prís er enn ódýrasta matvöruverslunin í samanburði verðlagseftirlitsins. Af 340 vörum sem finna mátti í Bónus, Krónunni og Prís þann 5. september voru 97% á lægsta verðinu í Prís. Í Bónus voru 7% á lægsta verðinu og í Krónunni ein vara – Kjarnafæðis-bratwurst sem kostaði 612 krónur, eins og í Bónus. Í Prís kostaði varan 613 krónur og í Nettó 614 krónur.
Munurinn var ekki alltaf svo tæpur. Meira en fjórða hver vara var yfir 5% ódýrari í Prís en í Bónus. Tíunda hver vara var meira en 10% ódýrari og ein var á hálfvirði miðað við Bónus; Goða skinkubunki. Lista yfir vörur með stærsta verðmuninn fylgir fréttinni.
Verðsamanburður í matvöru staðfestir að Prís er ódýrasta verslunin, en verð þar er 1,4% frá lægsta verði að meðaltali. Sambærileg tala í Bónus er 3,4% og í Krónunni 5,7%. Efst trónir 10-11, en þar er verð 81% frá lægsta verði að meðaltali.
Líkt og verðlagseftirlitið benti á í ágúst var verðlag þann mánuðinn tekið að lækka, en mánaðarlækkun matvöruverðlags nam þá 0,2%. Þegar allur mánuðurinn er talinn lækkaði verðlag á matvöru um 0,5% milli júlí og ágúst.
Hér má sjá mánaðarlegar verðlagsbreytingar stærstu verslana :
Vörur þar sem mestu munar á Bónus og Prís: