Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag en þar kemur fram að fyrirtækið Kleifar fiskeldi standi að verkefninu og er Róbert Guðfinnsson, stofnandi Genís, í fyrirsvari fyrir félagið. Þá kemur Árni Helgason, verktaki í Ólafsfirði að verkefninu og aðrir fjárfestar.
Um er að ræða býsna stórt verkefni og segir í Morgunblaðinu að ætlunin sé að eldið verði þríþætt. Í fyrsta lagi seiðaeldi á Siglufirði, landeldi í Ólafsfirði og áframeldi í sjókvíum í fjörðum á Tröllaskaga. Eftir að leyfi hafa fengist er talið að það taki um fimm ár að koma eldinu af stað.
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að sjö nærliggjandi sveitarfélögum verði boðinn samtals 10,1% hlutur í Kleifum endurgjaldslaust. Hlutabréfin verði án atkvæðisréttar og óheimilt verði að framselja þau.
Haft er eftir Róberti að með þessu sé tryggt að sveitarfélögin fái sinn skerf og ekki gerist það sama og þegar kvótakerfið í sjávarútvegi var endurskipulagt með tilheyrandi hagræðingu þannig að sveitarfélögin sátu eftir tekjulaus.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.