Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur kveðið upp úrskurð í máli hjóna sem fóru í utanlandsferð í viku, í janúar síðastliðnum. Vildu hjónin meina að fyrirtækið, sem þau fóru í ferðina hjá, hefði borið ábyrgð á því að ferðataska í þeirra eigu hefði eyðilagst og fóru fram á skaðabætur.
Hjónin, karlmaður og kona, fóru í ferðina frá Keflavíkurflugvelli til ónefnds lands og komu til baka viku síðar. Þegar hjónin komu til hins ónefnda lands kom í ljós að innrituð ferðataska þeirra hafði rispast töluvert en hjónunum var tjáð af starfsmanni flugvallarins sem þau lentu á að taskan hefði dottið af farangursbifreið. Þegar hjónin flugu síðan til baka til Keflavíkurflugvallar, eftir viku, hafði taskan beyglast töluvert.
Hjónin sögðu að taskan hafi verið ný og í fullkomnu standi við brottför frá Keflavíkurflugvelli og gerðu kröfu um bætur. Fyrirtækið sem þau fóru í ferðina hjá bað þau um að fara með töskuna í viðgerð til ákveðins aðila. Viðgerðaraðilinn tjáði þeim að ekki væri hægt að gera við skemmdirnar. Taskan var keypt í Bandaríkjunum og greiddar fyrir andvirði fyrir um 165.000 íslenskra króna og þegar hún var flutt til Íslands bættist virðisaukaskattur við.
Fyrirtækið hafnaði bótakröfu hjónanna á þeim grunni að engin gögn hefðu verið lögð fram um að taskan væri ónýt. Myndir frá hjónunum hafi gefið til kynna eðlilegt slit sem fyrirtækið bæri ekki ábyrgð á. Fyrirtækið benti einnig á að það greiði fyrir viðgerðir á skemmdum ferðatöskum. Sé taskan ónýt bæti fyrirtækið tjónið upp að því hámarki sem Montreal-samningurinn, um samræmingu reglna um loftflutninga milli landa, kveði á um.
Hjónin vísuðu á móti til þess að viðgerðaraðilinn sem fyrirtækið vísaði þeim á hafi sagt töskuna ónýta og sögðu að ekki gæti verið um eðlilegt slit að ræða þar sem þau hefðu verið að nota töskuna í fyrsta sinn. Skemmdirnar hefðu haft veruleg áhrif á útlit ferðatöskunnar og því fóru þau fram á sanngjarnar bætur í samræmi við ákvæði Montreal-samningsins.
Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa kemur fram að viðgerðaraðilinn hafi sagt við hjónin að hann vildi ekki gefa skriflega yfirlýsingu um að taskan væri ónýt þrátt fyrir að hafa staðfest það munnlega við þau. Hann geri það ekki í þeim tilvikum sem hann geri ekki við töskurnar sjálfur. Í staðinn lögðu hjónin fram yfirlýsingu frá framleiðanda töskunnar þar sem fram kom að ekki væri hægt að gera við hana. Fyrirtækinu var boðið að bregðast við þessari yfirlýsingu en kaus að gera það ekki.
Nefndin taldi að gögn málsins sýndu fram á að hin innritaða taska hefði orið fyrir skemmdum í vörslu fyrirtækisins sem hjónin fóru í ferðina hjá og að hjónin hefðu sýnt fram á að ekki væri hægt að gera við töskuna.
Hámarksfjárhæð bóta samkvæmt áðurnefndum Montreal-samningi er hærri en verðmæti töskunnar og því lagði nefndin fyrir fyrirtækið að greiða hjónunum bætur sem nema því verði sem þau greiddu fyrir töskuna í Bandaríkjunum.