fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Furða sig á reikningsdæmi FÍB um strætó og einkabílinn – „Þetta bara meikar ekki sens“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 3. september 2024 12:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tiltölulega stutt grein sem birtist á heimasíðu FÍB í morgun hefur vakið talsverðar umræður. Þar er þeirri fullyrðingu varpað fram að strætó sé ekki afkastameiri en einkabíllinn og er vafasamt reikningsdæmi látið fylgja með.

Í greininni segir meðal annars að því sé oft haldið fram að fullur strætisvagn afkasti meiru en einkabíllinn vegna þess að strætóinn tekur aðeins brot af plássinu á götunum.

„En þá gleymist að taka með í reikninginn að bílarnir eru allir á ferð og nota plássið því í afar skamman tíma. Einfalt reikningsdæmi sýnir að einkabíllinn hefur vinninginn yfir strætisvagninn,“ segir meðal annars áður en dæmið er sett upp.

„Gefum okkur tveggja akreina götu með 40 km hámarkshraða og að allir keyri á þeim hraða í eina mínútu. Segjum að strætó aki þessa götu með 50 farþega á einni mínútu. Á sömu einu mínútunni geta 450 einkabílar farið þessa leið á 40 km hraða. Þó aðeins einn farþegi sé í hverjum einkabíl, þá er bíllinn samt níu sinnum afkastameiri en strætóinn. Til að strætó nái einkabílnum í afköstum þyrftu níu strætisvagnar með 50 farþega hver að vera á ferðinni þessa einu mínútu.“

Þessi framsetning hefur vakið athygli á netinu, til dæmis á Facebook-síðu FÍB og eins í Facebook-hópnum Samtök um bíllausan lífsstíl. „Ég er menntaður stærðfræðingur en til að skilja þessa „stærðfræði“ þyrfti maður líklega að vita hvað þau eru að reykja á skrifstofu FÍB,“ segir til dæmis einn í fyrrnefndum hópi. Annar segist vera stoltur félagi í FÍB en félagið leggist þó býsna lágt í þessum samanburði.

Í hópnum bendir einn á að reikningsdæmið hafi sennilega verið fengið fram með aðstoð gervigreindar og fyrst birt á umræðuvef um Borgarlínu. Á þessu þurfi að passa sig á enda þurfi að setja ýmsar breytur inn í dæmið, til dæmis fjarlægð á milli ökutækja sem ekki var gert í fyrrnefndu dæmi. Þá bendir einn á að sama hvaða forsendur eru gefnar þá sé erfitt að réttlæta þá niðurstöðu að fólksbíll sé afkastameiri en strætisvagn.

Svipaðar athugasemdir má sjá undir færslu FÍB um málið. „Ég er meðlimur í FÍB og þetta er stækasta vitleysa,“ segir í einni athugasemd og í annarri segir: „Þessir útreikningar sanna að strætó er afkastameiri. Þarft bara 9 strætóa til að vinna 450 einkabíla. 9 strætóar taka mun minna pláss en 450 einkabílar. 9 stætóar skapa minni umferðarflækju en 450 einkabílar. 9 strætóar menga minna en 450 einkabílar. Borg sem er hönnuð fyrir fólksflutninga en ekki bíla er betri borg.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt