Hæstiréttur hefur hafnað að taka fyrir mál sem varðar kvöð yfir Gúttó, góðtemplarahúsinu í Hafnarfirði. Bindindismenn (IOGT) unnu málið gegn fyrrverandi stjórn Hafnarfjarðardeildar félagsins og Hafnarfjarðarbæ. Eignarhald hússins hafði verið fært yfir til bæjarins án þess að leggja það fyrir landsstjórn IOGT.
DV greindi frá upphafi málsins í október á síðasta ári en þá hafði IOGT stefnt Hafnarfjarðarbæ, Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og þremur fyrrverandi stjórnarmönnum Hafnarfjarðardeildar IOGT. Þeim Jóni Kr. Jóhannessyni, Jóni Sigurbjörnssyni og Símoni Jóni Jóhannssyni.
Var það vegna þess að eignarhald á húsnæðinu að Suðurgötu 7, góðtemplarahúsinu sögufræga Gúttó, hafði verið fært yfir á Hafnarfjarðarbæ án þess að bera það undir landsstjórn samtakanna. Hafnarfjarðardeildin hafði svo verið lögð niður.
Gúttó, sem var byggt árið 1886, var áður frægur ball og samkomustaður en hefur einnig verið notað sem fundarstaður. Undanfarin ár hefur Hafnarfjarðarbær verið með húsið að láni fyrir sýningu byggðasafnsins og séð um rekstur og viðhald þess á meðan.
Krafa IOGT var einfaldlega að gjörningurinn yrði tekinn til baka. „Núna virðist sem Hafnarfjörður sé orðinn eigandinn. Það þarf að breyta því aftur til baka. IOGT á þetta hús. Ekki einhverjir þrír einstaklingar eða Hafnarfjarðarbær,“ sagði Aðalsteinn Gunnarsson framkvæmdastjóri í viðtali við DV á sínum tíma. Fasteignamat hússins er um 70 milljónir en lóðin undir er mun verðmætari.
Héraðsdómur Reykjaness hafnaði kröfu IOGT í mars síðastliðnum. Rök bæjarins og stjórnarmannanna voru þau að landssamtökin hefðu aldrei átt Gúttó. Þinglýstir eigendur væru „Góðtemplarar í Hafnarfj.“
Landsréttur sneri þessu hins vegar við í lok júní. Var ákvörðun sýslumannsins því hnekkt.
„Bera gögn málsins ekki með sér að augljóst hafi verið að virtum gögnum sem lágu fyrir sýslumanni að þar hafi verið um einn og sama aðila að ræða eða að „Góðtemplarar í Hafnarfj“ gætu talist vera sjálfstæður lögaðili frekar en deild eða félagsskapur innan sóknaraðila, svo sem fullyrt var í fyrrgreindum texta kvaðarinnar,“ segir í dómi Landsréttar.
Hafnarfjarðarbær og stjórnarmennirnir þrír freistuðu þess að skjóta málinu til Hæstaréttar og báru fyrir sig að dómurinn hefði verið rangur og varðaði mikilsverða almannahagsmuni um þinglýsingar og ráðstöfun fasteigna.
En rétturinn hafnaði kæruleyfisbeiðninni, taldi kæruefnið ekki varða mikilsverða almannahagsmuni eða hafa fordæmisgildi og ekki væri ástæða til þess að ætla að dómur Landsréttar væri rangur.