fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Fréttir

Skipað að hreinsa lóðina en segjast aldrei hafa fengið nein bréf um það

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 2. september 2024 18:30

Vogar á Vatnsleysuströnd. Mynd: Eysteinn Guðni Guðnason - CC BY-SA 4.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=137664541

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðað í máli sem varðar hreinsun lóðar fyrirtækis í  sveitarfélaginu Vogum. Krafðist fyrirtækið þess að ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja um hreinsun á lóðinni yrði felld úr gildi á þeim grundvelli að því hefði aldrei borist nein bréf með slíkum kröfum. Nefndin hafnaði hins vegar kröfu fyrirtækisins.

Um er að ræða fyrirtækið Iðndalur 23 ehf. en það kærði ákvörðunina í júní síðastliðnum en hún snerist um hreinsun þess hluta lóðarinnar sem fylgir húsnæði þess í Vogum.

Í apríl krafðist Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja þess bréflega að fyrirtækið myndi fjarlægja númerslaus ökutæki og vinnuvélar af sínum hluta lóðarinnar, flokka úrgang og koma honum í löglega förgun. Fékk fyrirtækið fjögurra vikna frest.

Þegar sá frestur var liðinn fór Heilbrigðiseftirlitið í vettvangsferð og skoðaði lóðina. Niðurstaðan var að úrbætur væru ekki nægilegar og var veittur tveggja vikna lokafrestur. Sama dag var málið tekið fyrir á fundi Heilbrigðisnefndar Suðurnesja. Þar var niðurstaðan sú að eftir að þessi lokafrestur væri liðinn myndi Heilbrigðiseftirlitið annast hreinsun lóðarinnar. Var fyrirtækinu tilkynnt þetta með bréfi 5 dögum síðar.

Hafi aldrei fengið nein bréf

Forsvarsmenn fyrirtækisins vildu hins vegar meina að öll bréf Heilbrigðiseftirlitsins, sem vörðuðu málið, hefðu aldrei borist þeim. Þau hafi aldrei verið send í ábyrgðarpósti og því sé algerlega ósannað hvenær þau hafi borist. Þeir sögðu að síðan 2012 hefði fyrirtækið haft allar tekjur sínar af útleigu tækja og þjónustu sem tengist byggingariðnaði. Sögðu þeir að allir númerslausir bílar sem stæðu á lóðinni fengju númer þegar þeir væru í útleigu eins og venjan væri hjá bílaleigum. Vildu þeir einnig meina að orðið hefði verið við óskum byggingarfulltrúa um að tekið yrði til á lóðinni.

Sögðu forsvarsmennirnir að Heilbrigðiseftirlitið hefði farið fram með offorsi í málinu. Lóðin sé atvinnulóð en lóðir í kring íbúðalóðir. Óskað hafi verið eftir því að breyta lóðinni í íbúðalóð til að geta byggt íbúðarhúsnæði til útleigu en því hafi verið hafnað hingað til af sveitarfélaginu. Byggingarefni sem geymt sé á lóðinni eigi að nota í byggingu á slíku húsnæði þegar leyfi fáist. Upphlaup Heilbrigðiseftirlitsins vegna byggingarefnisins sé óskiljanlegt.

Hafi víst fengið bréf

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja sagði meðal annars að eftir að bréfið, um ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja um að lóðin yrði hreinsuð að lokafresti liðnum, var sent hafi nokkrum dögum síðar borist tölvupóstur frá fyrirtækinu. Farin hafi verið vettvangsferð og við það tækifæri hafi starfsmenn eftirlitsins rætt við forsvarsmann fyrirtækisins sem hafi samþykkt að fjarlægja sex númerslaus ökutæki af lóðinni.

Sagðist Heilbrigðiseftirlitið hafa sent öll þau þrjú bréf sem vörðuðu málið á skráðan forsvarsmann fyrirtækisins og í ljósi kærunnar sé hægt að slá því föstu að síðasta bréfið hafi að minnsta kosti borist.

Fyrirtækið hafi ekki framvísað neinum gögnum um að á lóðinni væri rekin útleiga bíla en slíkur rekstur sé starfsleyfisskyldur. Hafðar hafi verið uppi kröfur á fyrirtækið um að hreinsa lóðina síðan 2014 og síðast hafi samskonar krafa og þetta mál snýst um verið gerð 2021. Forsvarsmenn fyrirtækisins eigi því að vita vel hvaða reglur gildi um meðhöndlun úrgangs og hvernig þeim sé fylgt eftir.

Sagði Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja einnig að númerslausu bílarnir á lóðinni væru sýnilega í slæmu ásigkomulagi. Olía úr þeim hefði lekið í jarðveginn og glerbrot úr bílrúðum séu sömuleiðis sýnileg í jarðveginum.

Hafi sannarlega fengið bréf

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir meðal annars að bréf Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hafi verið send á heimili skráðs forsvarsmanns fyrirtækisins sem sé dóttir þess aðila sem fari með daglega stjórn þess. Heilbrigðiseftirlitinu hafi borist póstur frá aðila sem hafi sagst hafa fengið tvö bréf í hendurnar um hreinsunina og hafi komið á framfæri athugasemdum. Því verði að líta svo á að ljóst hafi verið að málið væri til meðferðar hjá eftirlitinu og því hafi átt að vera augljóst mál að fylgjast með því hvort fleiri bréf myndu berast.

Nefndin segir einnig að gildandi reglugerðir hafi verið skýrar um að fyrirtækinu bæri að halda lóðinni hreinni og snyrtilegri.

Sömuleiðis hafi komið fram í þessum bréfum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja að umgengni um lóðina sé slík að henni fylgi hætta á mengun og slysum. Númerslaus ökutæki standi á lóðinni ásamt öðrum úrgangi sem sé til lýta fyrir umhverfið. Með bréfunum hafi fylgt myndir sem stutt hafi þessar staðhæfingar.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gerði því engar athugasemdir við mat heilbrigðiseftirlitsins um ástand lóðarinnar og kröfu þess um hreinsun.

Kröfu fyrirtækisins um að ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja, um að lóðin verði hreinsuð, yrði ógild var þar af leiðandi hafnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“