Hart var tekist á um kaupréttarsamninga níu stjórnenda og lykilstarfsmanna á hluthafafundi Haga á föstudag. Breytingartillaga stjórnarinnar vann með naumum meirihluta. Stærsti hluthafinn, lífeyrissjóðurinn Gildi, varð undir á hluthafafundinum.
Eins og DV greindi frá í síðustu viku hefur staðið til að æðstu lykilstarfsmenn Haga fái að kaupa í félaginu á hagstæðum kjörum, með svokölluðum kaupréttarsamningum. Í vor lagði stjórnin fram tillögu að því að níu starfsmenn fengju að kaupa samanlagt tvö prósent í félaginu, forstjóri 0,4 prósent en aðrir 0,2. En það var um það leyti sem greint var frá því að Hagkaup hygðist stofna netverslun með áfengi.
Eftir mótspyrnu frá lífeyrissjóðinum Gildi, sem er stærsti hluthafinn í félaginu með tæp 18 prósent hlut, var ákvörðun frestað fram að hluthafafundi 30. ágúst. Á sama tíma var opnun netverslunar með áfengi frestað fram yfir sumar.
Í breytingatillögu Gildis var dregið úr umfangi kaupréttanna niður í 0,15 prósent og verðið á hverjum hlut hækkað þar sem hann taldi að tillaga stjórnar fæli í sér innbyggðan hagnað fyrir þessa lykilstarfsmenn. Einnig vildi sjóðurinn að ef starfsmennirnir fengju kauprétt yrðu grunnlaunin lækkuð.
Aðeins eitt mál var á dagskrá á hluthafafundinum á föstudag, hið nýja kaupréttarkerfi. 35 hluthafar, sem eiga samanlagt tæplega 85 prósent voru mættir, flestir lífeyrissjóðir.
Var þar tilkynnt um nýja tillögu stjórnarinnar, breytingartillögu við breytingartillögu Gildis þar sem lagt var fram að starfsmennirnir fengju að kaupa 0,18 prósenta hlut á hagstæðari kjörum en í tillögu Gildis.
„Stjórn telur fram komna breytingartillögu Gildis-lífeyrissjóðs ekki vel til þess fallna að ná settum markmiðum, m.a. um að tvinna saman hagsmuni lykilstarfsmanna Haga hf. og hluthafa félagsins,“ segir í greinargerð með tillögunni.
Tók þá Davíð Rúdólfsson, framkvæmdastjóri Gildis, til máls og lýsti því yfir að lífeyrissjóðurinn myndi ekki styðja þessa tillögu. Ítrekaði hann meðal annars þau sjónarmið að úthlutun kauprétta ætti ekki að leiða til hreinna hækkana á kjörum heldur ætti að endurskoða aðra þætti starfskjara.
Eftir umræður var gengið til atkvæðagreiðslu um tillögu stjórnar sem var samþykkt með 58,8 prósentum gegn 41,2 prósentum.
Tvær minniháttar breytingar voru samþykktar með handauppréttingu. Óskuðu hins vegar fulltrúar bæði Gildis og Stefnis hf (dótturfélag Arion banka) að sitja hjá við þær atkvæðagreiðslur.
Eins og DV greindi frá eru það níu stjórnendur og lykilstarfsmenn sem munu fá kauprétt. Hafa nú nöfnin verið uppgefin og tilkynnt til kauphallar.
Þau eru eftirfarandi: Finnur Oddsson forstjóri Haga, Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups, Björgvin Víkingsson framkvæmdastjóri Bónus, Ingunn Svala Leifsdóttir framkvæmdastjóri Olís, Jóhanna Þorbjörg Jónsdóttir framkvæmdastjóri Banana, Magnús Magnússon aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri stefnumótunar og rekstrar, Guðrún Eva Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Haga, Lárus Óskarsson framkvæmdastjóri aðfanga og Eiður Eiðsson framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni.