Í grein sinni skrifar hann um lestrarhæfni drengja sem hann segir að sé vissulega alvarlegt mál en umræðan sé á köflum allt of hörð og neikvæð.
„Mikið er óskapast yfir því að drengir séu „ólæsir“ í lok grunnskólagöngu. Nú er látið eins og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra beri einn alla sök á því hvernig komið er. Ásmundur Einar hefur þó aðeins í tæp þrjú ár gegnt starfi menntamálaráðherra. Mér skilst að vandamálið sé ekki fætt í gær og jafnvel séu áratugir síðan fór að bera á ólæsi drengja. Við sem eldri erum munum að við lærðum að lesa við eldhúsborðið heima og það var Litla gula hænan sem skipti sköpum í okkar menntun þá,“ segir Guðni í grein sinni.
Hann segir jafn vitlaust að kenna Ásmundi Einari um vandræði drengjanna hvað lesturinn varðar eins og að einhverjir færu að þakka honum fyrir að hann hefði fundið upp lesturinn. Þetta vandamál sé gamalt og nýtt.
„Strákar hafa önnur áhugamál og margir þeirra „ólæsu“ hafa orðið afreksmenn sinna byggðarlaga. Ég gæti farið hringinn kringum landið þar sem duglegustu athafnamennirnir voru bara og eru með barna- eða unglingaskólapróf. Hér á Selfossi hafa verið og eru afburðamenn að dugnaði og framsýni í atvinnulífinu sem hættu ungir í skóla og kennarar þeirra töldu best að þeir færu á „sjóinn“, eins og oft var sagt í mínu ungdæmi við þessa stráka.“
Guðni heldur áfram og segir:
„Ólæsi er stórt orð, og ekki alls kostar rétt um þetta vandamál, samt er þetta grafalvarlegt mál, reynir bæði á kennara og foreldra og menntakerfið allt. Því held ég að umræðan sé alltof hörð og neikvæð. Viðkvæðið er það sama og í Litlu gulu hænunni hjá öllum þegar rætt er um hverjum ólæsi sé að kenna, svarið er: „Ekki ég.“ Svo er bara gripið til gömlu íslensku aðferðarinnar að hengja bakara fyrir smið. Lýðurinn hrópar: Krossfestum bara „blessaðan“ mennta- og barnamálaráðherrann! Það eru ekki allir jafnir á bókina og mig minnir að gagnfræða- og landsprófið hafi hér áður flokkað sauðina frá höfrunum. Hjá öðrum hópnum stóð hugurinn til langskólanáms og hvíthúfu, hjá hinum til iðngreina, landbúnaðar eða sjómennsku.“
Guðni segir að hér áður fyrr hafi verið best að vekja menntaþrá barna með lestri. Hann segir að börn í dag kunni þó miklu meira á flestum sviðum en bæði hann og jafnaldrar hans gerðu um fermingu.
„Þau hafa tungumál á hreinu, þau kunna á alla tækni og eru orðin hámenntuð á mörgum sviðum. Mér hefur verið sagt að þessi nýja kynslóð sé kölluð þumalputtakynslóðin. Og kannski eru margir þessir drengir jafnokar BS-gráðudrengjanna, en menntakerfið verður að átta sig á því að dugnaðurinn finnur alltaf upp nýja sigra. Þeir sem sagt var að fara á sjóinn hafa spjarað sig. Og ólæsið er kannski ekki ólæsi heldur bein leið að nýju marki sem menntakerfið hafnar eins og hesturinn, svínið og kötturinn í Litlu gulu hænunni.“