Kærunefnd vöru – og þjónustukaupa hefur kveðið upp úrskurð í máli sem kona nokkur skaut til nefndarinnar. Snerist málið um að konan hafði keypt hund en seljandinn hafði tekið hundinn af henni og endurgreitt kaupverðið á þeim grundvelli að hún gæti ekki séð um hundinn vegna geðrænna veikinda sinna. Krafðist konan þess að fá hundinn til baka eða skaðabætur en nefndin hafnaði kröfu hennar þrátt fyrir að hún telji að ekki hafi verið færðar sönnur á að konan hafi vanrækt hundinn.
Vildi konan að skaðabæturnar næmu þeirri upphæð sem kostar að flytja inn hund að utan.
Konan keypti hvolp af seljandanum og borgaði fyrir hann 350.000 krónur. Kaupsamningur var undirritaður og hvolpurinn afhentur sama dag. Þremur vikum síðar kom seljandinn á heimili konunnar og tilkynnti henni að hvolpurinn yrði tekinn til baka vegna andlegra veikinda hennar. Seljandinn tók hundinn og endurgreiddi konunni kaupverðið. Sagðist konan ekki hafa þekkt rétt sinn og því ekki haft vit á að mótmæla aðgerðum seljandans.
Seljandinn vísaði til þess að það skilyrði hefði verið sett við söluna að heimilisaðstæður konunnar væru í lagi. Sagðist seljandinn hafa fengið fréttir af andlegum veikindum konunnar skömmu eftir söluna á hvolpinum. Þá hafi hann frétt af því að hvolpurinn byggi við bágar aðstæður og að konan væri ófær um að hugsa um hvolpinn á því tímabili. Vísaði seljandinn til færslu konunnar á Facebook þar sem hún tjáði sig opinskátt um andlegt ástand sitt. Sagði seljandinn að heimilisaðstæður konunnar hefðu ekki verið í samræmi við þær upplýsingar sem hún hefði veitt áður en hún keypti hvolpinn.
Vildi seljandinn sömuleiðis meina að samkomulag hefði orðið um að hann myndi taka hvolpinn til baka vegna ástandsins og endurgreiða kaupverðið sem hann hafi gert.
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa segist í niðurstöðu sinni líta svo á að sú aðgerð seljandans að taka hvolpinn frá konunni og endurgreiða henni kaupverðið hafi falið í sér riftunaryfirlýsingu. Í kaupsamningi sem báðir aðilar hafi undirritað komi fram að konan skuli hugsa um hundinn, kynna sér uppeldi og sækja þar til gert námskeið ef kostur væri. Seljandinn hafi framvísað skjáskotum af færslum þar sem konan hafi tjáð sig um andlega heilsu sína og hann hafi vísað til þess að hvolpurinn hefði verið óöruggur og ljóst væri að umhverfisþjálfun hafi ekki verið sinnt. Umhverfisþjálfun er ekki skilgreind nánar í úrskurðinum.
Nefndin segir að seljandinn hafi ekki sýnt fram á að konan hafi vanrækt hundinn eða með öðrum hætti vanefnt kaupsamninginn með slíkum hætti að það hafi réttlætt fyrirvaralausa riftun. Kaupunum hafi verið rift eftir að konan hafi greitt fyrir hvolpinn að fullu. Hin fyrirvaralausa riftun seljandans á kaupsamningnum hafi þar með verið ólögmæt.
Þrátt fyrir þetta segir nefndin það ekki unnt að fallast á þá kröfu konunnar að hún fái hvolpinn til baka enda sé rúmt ár liðið frá því að hvolpurinn var tekinn af heimili hennar.
Hvað varðar skaðabótakröfu konunnar segir nefndin að það liggi fyrir að hún hafi fengið kaupverðið endurgreitt. Konan hafi fullyrt að hún geti ekki, eftir þessi viðskipti við seljandann, keypt hund af íslenskum ræktanda og þurfi því að flytja inn hund erlendis frá. Vildi nefndin meina að konan hefði ekki sýnt fram á að tjón hennar væri meira en sem næmi endurgreiðslu kaupverðsins og heldur ekki fært sönnur á að orsakatengsl væru milli þessa meinta tjóns og riftunarinnar á kaupunum. Þessari kröfu hennar var því einnig hafnað.