Prís, ný lágvöruverðsverslun opnaði laugardaginn 17. ágúst, en verslunin er fyrsti nýi aðilinn til að koma inn á lágvöruverðsmarkað í 24 ár. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu.
Markmið Prís er að lækka matvöruverð á Íslandi og rífa upp samkeppni á ný á matvörumarkaði, eins og komið hefur fram í fréttatilkynningum og viðtölum.
Mikið hefur verið rætt um hagstætt vöruverð í Prís á samfélagsmiðlum og sagði Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri að lágu verðin séu komin til að vera.
Í myndbandi sem birt var á Facebook-síðu Prís í gær má sjá starfsmenn gera góðlátlegt grín að keppinautum sínum á matvörumarkaði Nettó, Hagkaup og Bónus. Sést starfsmaður þar fletta Morgunblaðinu sem ávallt er í aldreifingu á fimmtudögum, en verslanirnar fjórar auglýsa allar í blaðinu þó með mismunandi hætti sé.