fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Fréttir

Hættuleg umferðarljós í Langholtshverfi vekja reiði íbúa – „Það munaði svo litlu að keyrt væri yfir hana“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 30. ágúst 2024 10:30

Gatnamótin eru stórvarasömu að sögn íbúa. Mynd/Skjáskot Ja.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikil umræða hefur skapast á meðal íbúa í Langholtshverfi vegna hættulegra aðstæðna á gatnamótum Langholtsvegar og Skeiðarvogs. Segja íbúarnir ljósakerfið þar hættulegt fyrir gangandi vegfarendur og að margoft hafi það komi fyrir að bílar hafi nauðhemlað þegar börn voru að ganga yfir.

Ein móðir í hverfinu opnaði umræðuna í hverfagrúbbu og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Biðlaði hún til fólks að vanda sig betur á umferðarljósunum á þessum gatnamótum. En á þeim komi grænt ljós á sama tíma fyrir gangandi vegfarendur og bíla sem beygja.

„Þarna fara börn yfir á hverjum morgni og síðdegis á sama tíma og umferðin er þung og fólk er að drífa sig úr og í vinnu,“ segir móðirin. „Ég hef sjálf ítrekað og eiginlega mjög oft lent í því að bíll sjái ekki/keyri í veg fyrir eða nauðhemli þegar ég fer yfir þessi ljós.“

Það sé ekki ásættanlegt að setja ábyrgðina á börnin að þurfa að fylgjast með bílaumferðinni. Fullorðið fólk þurfi að læra að haga sér á bíl.

„Í morgun fór ég hjólandi með tvö börn í skóla og leikskóla. Eldra barnið beið eftir grænum karli yfir Langholtsveginn og lagði svo af stað yfir. Ég var svo á leið yfir Skeiðarvoginn á öðrum stað en fylgdist með henni. Það munaði svo litlu að keyrt væri yfir hana!“ segir móðirin. „Ég horfði upp á jeppling koma frá Skeiðarvogi og beygja inna Langholtsveg á frekar mikilli ferð og svína fyrir barnið sem var komið út á götuna á grænu ljósi!“

Fékk fingurinn

Aðrir íbúar í hverfinu benda á að þessi gatnamót séu ekki einsdæmi. Það sama eigi til dæmis við annars staðar á Langholtsveginum, á gatnamótunum við Álfheima. Ekki sé langt síðan það hafi orðið banaslys á gatnamótum Skeiðarvogs og Gnoðarvogs, þar sem eru bæði grunnskóli og framhaldsskóli mjög nálægt.

„Sammála, er meinilla við þessi „ljós“ og hef alloft þurft að stökkva til og grípa inn í þegar mín börn ganga yfir á grænum og bílar taka ekki eftir. Eitt skiptið var það eldri kona á jepplingi og hún gaf mér bara fingurinn þegar ég reyndi að benda henni á að hún væri við það að aka yfir okkur,“ segir ein kona um fyrrnefndu gatnamótin.

Bent er á að ljósin séu vanstillt. Gönguljósin eigi að loga græn í þrjár sekúndur áður en umferðarljósin verða græn. Einnig að umferðarþunginn sé orðinn of mikill í hverfinu.

Hraðinn gríðarlegur

Einn faðir segir að hans fjölskylda þekki vel umrædd ljós þar sem bílstjórar hafi oft sýnt af sér hættulega hegðun gagnvart þeim. Hann hafi árangurslaust sent pósta á Reykjavíkurborg og lýst áhyggjum sínum á öryggi vegfarenda, einkum skólabarna og skorti af hraðatakmarkandi aðgerðum á Langholtsvegi.

„Áður en börnin mín fara í skóla á morgnanna þá bendi ég þeim á að fara varlega á leið sinni í skólann. Þau fara samt alltaf varlega. Þau fylgja umferðarreglum. Það sem ég er í raun og veru að segja við þau er að þau eiga að passa sig á bílstjórum sem gætu mögulega keyrt á þau,“ segir faðirinn. „Mér finnst þetta skrítið. Af hverju eiga börnin mín ekki bara að geta farið í skólann án þess að við foreldrar höfum áhyggjur af því að það sé keyrt á þau. Mér finnst að við eigum að geta skapað umhverfi þar sem börnin okkar eru örugg á leið sinni til og frá skóla og bara hvert sem er.“

Vandamálið liggi hjá þeim sem keyra of hratt. Fólk reyni að „ná ljósum“ í staðinn fyrir að hægja á sér og stöðva. Gögn lögreglu sýni að 39 prósent keyri of hratt eftir Skeiðarvogi og 22 prósent á Langholtsvegi. Sá sem ók hraðast hafi verið á 78 km/klst hraða þar sem hámarkshraðinn er 30 km/klst.

„Fyrir ekki svo löngu síðan var banaslys í hverfinu okkar. Ég veit ekki hvort einhverju var breytt á þeim stað eftir það hræðilega slys en hvað með alla hina staðina? Þurfum við að bíða eftir alvarlegu slysi þar til að það verði gert eitthvað til að bæta öryggi,“ segir faðirinn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Í gær

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Í gær

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur