fbpx
Föstudagur 30.ágúst 2024
Fréttir

Ásdís segir Auði vera á villigötum og slengja fram órökstuddum fullyrðingum

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 30. ágúst 2024 11:30

Ásdís Kristjánsdóttir og Auður Önnu Magnúsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, segir að Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins, sé á villigötum í gagnrýni sinni á hið svonefnda Kópavogsmódel. Ásdís og Auður tókust á í Kastljósi í vikunni og hefur Ásdís nú fylgt þeirri umræðu eftir með aðsendri grein sem birtist á vef Vísis í morgun.

Kópavogsmódelið gengur út á það að fyrstu sex klukkustundirnar af leikskólavist barna eru gjaldfrjálsar en með auknum dvalartíma fara gjöldin stighækkandi. Þessu til viðbótar eru leikskólar lokaðir milli jóla og nýárs, í dymbilviku og vetrarfríum.

Markmiðið með þessu var að bæta starfsumhverfi leikskóla, finna leiðir til að útfæra styttingu vinnuvikunnar og fækka veikindadögum svo eitthvað sé nefnt. Deildar meiningar eru um það hvort þetta fyrirkomulag hafi gefist vel og hafa foreldrar í Kópavogi gagnrýnt það og viljað meina að verið sé að varpa aukinni byrði á foreldra og þá kannski sérstaklega mæður.

Birtingarmynd bakslags?

Í Kastljósi í vikunni sagði Auður að Kópavogsmódelið væri ein skýrasta birtingarmynd bakslagsins í jafnréttismálum á undanförnum árum.

„Rannsóknir hafa sýnt að það eru mæður sem taka á sig allar þessar styttingar. Það er verið að velta þessu yfir á heimilin og það eru heimilin sem eru að taka þetta, það er að segja mæður,“ sagði hún meðal annars og bætti við að starfshópur Kópavogsbæjar sem lagði tillögurnar fram hafi ekki rýnt í breytingarnar með tilliti til jafnréttismála.

„Við vitum að atvinnuþátttaka kvenna er alveg beintengd möguleikum til dagvistunar sem kostar venjulegt fólk ekki mikið. Svona aðgerðir hafa til langs tíma neikvæð áhrif á jafnréttismál. En vegna þess að bærinn fattaði ekki að rýna þetta með tilliti til kynjajafnréttis þá má segja að þetta sé ein skýrasta birtingarmynd bakslagsins í jafnréttismálum sem við höfum séð síðastliðin ár,“ sagði Auður í Kastljósi sem fjallað er um á vef RÚV.

Ekki kynnt sér málin

Í grein sinni á Vísi segir Ásdís að Auður og Kvenréttindafélagið séu á villigötum.

„Framkvæmdastjóra Kvenréttindafélagsins fullyrti í Kastljósi að Kópavogsmódelið væri ein skýrasta birtingarmynd bakslagsins í jafnréttisbaráttunni síðastliðin ár. Það er auðvelt að tala í fyrirsögnum og órökstuddum fullyrðingum án þess að kynna sér málin,“ segir Ásdís sem tekur fram að breytingarnar á leikskólaumhverfi Kópavogs hafi ekki átt sér stað í tómarúmi.

„Staðan í leikskólakerfinu var grafalvarleg og það var ábyrgðarhlutverk að horfast í augu við það og grípa til aðgerða þegar deildir voru lokaðar heilu og hálfu dagana sökum manneklu og veikinda. Þá voru ekki allar deildir fullnýttar því ekki tókst að ráða inn starfsfólk og því færri börn sem fengu leikskólapláss. Þessi staða einskorðast vissulega ekki við Kópavog heldur er þetta staða sem sveitarfélög almennt voru og eru enn sum hver að glíma við.“

Ásdís ber svo saman stöðuna á fyrsta árinu frá því að módelið var innleitt miðað við skólaárið þar á undan.  Hún nefnir að enginn lokunardagur hafi verið á leikskólum Kópavogs eftir breytinguna en til samanburðar voru þeir 212 skólaárið þar á undan. Þá séu leikskólarnir fullmannaðir í fyrsta skipti í mörg ár og fleiri börn fái því leikskólapláss.

„Dvalartími barna er styttri. Helmingur foreldra hefur stytt dvalartíma barna sinna. Meðaldvalartími barna hefur farið úr því að vera 8,1 klukkustund í 7,4 klukkustundir.

Kópavogsbær hefur lagt ríka áherslu á að rýna vel hvaða áhrif breytingarnar hafa á ólíka hópa. Foreldrakönnun leiðir í ljós að tekjulægstu heimilin og heimili sem svöruðu könnuninni á ensku eru einna ánægðust með breytingarnar. Sami hópur er líklegastur til að nýta sér aukinn sveigjanleika og styttri dvalartíma,“ segir hún í grein sinni.

Holur hljómur

Ásdís segir að leikskólar séu grunnstoð jafnréttis og tilkoma þeirra fyrir áratugum síðan hafi verið sigur í jafnréttisbaráttunni og klárlega meginskýringin á því að atvinnuþátttaka kvenna er ein sú hæsta í heimi hér á landi. Og með breytingum á leikskólaumhverfi Kópavogs sé verið að standa vörð um þetta mikilvæga kerfi sem er lykilbreyta í jafnrétti kynjanna.

„Framkvæmdastjóri Kvenréttindafélagsins virðist horfa framhjá því hvaða áhrif það hefur á jafnrétti þegar hringt er í foreldra án fyrirvara að sækja börn sín fyrr sökum veikinda eða vera heima með börn sín því þau fá ekki úthlutað leikskólapláss sökum manneklu. Miðað við fullyrðingar framkvæmdastjóra hefði slíkt lent einna helst á mæðrum að vera heima með börnin,“ segir Ásdís sem ítrekar að módelið hafi skilað árangri.

„Þjónustan er faglegri, stöðugri og betri. Ekki ríkir mannekla lengur á leikskólum Kópavogs og foreldrar geta betur treyst því að leikskólar séu ekki að loka sökum veikinda. Það er holur hljómur í málflutningi framkvæmdastjóra Kvenréttindafélagsins þar sem órökstuddum fullyrðingum er slegið fram sem standast ekki skoðun. Kópavogsmódelið stendur vörð um leikskólakerfið sem er grunnstoð jafnréttis!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Yfirlýsing frá Ice Pic Journeys – Harma mjög banaslysið

Yfirlýsing frá Ice Pic Journeys – Harma mjög banaslysið
Fréttir
Í gær

Kona af Reykjanesi fékk 60 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að áreita barn kynferðislega

Kona af Reykjanesi fékk 60 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að áreita barn kynferðislega
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mikið slasaður eftir umferðarslys á laugardag – Lögregla óskar eftir vitnum

Mikið slasaður eftir umferðarslys á laugardag – Lögregla óskar eftir vitnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Anton fann fyrir nýrri tegund af þreytu eftir fyrsta vinnudaginn – Eftir 25 ár segir hann starfið einnig gefandi og skemmtilegt

Anton fann fyrir nýrri tegund af þreytu eftir fyrsta vinnudaginn – Eftir 25 ár segir hann starfið einnig gefandi og skemmtilegt