fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Segja hættur á ferðamannastöðum öllum kunnar og lærdóm aldrei dreginn af banaslysum – „Enginn ábyrgur og „slysin geta alltaf gerst“ viðhorfið“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 28. ágúst 2024 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Slysið við Breiðamerkurjökul á sunnudag, þar sem bandarískur ferðamaður lést og og kærasta hans slasaðist, eftir að ísveggur gaf sig í íshelli, hefur verið eitt helsta frétta- og umræðuefni vikunnar.

Lærðir sem leikmenn hafa tjáð sig um atvikið í fréttum og á samfélagsmiðlum. Mikið hefur verið rætt um af hverju slíkar ferðir eru farnar að sumri til og einnig hvernig það gat gerst að hátt í þrjú hundruð viðbragðsaðilar leituðu tveggja ferðamanna sem talið var að lægju undir ísnum, en í ljós kom að fyrirtækið sem sá um ferðina var ekki það sleipasta í talningu og því ekki með nákvæman fjölda ferðamanna á sínum vegum á hreinu.

Atvikið var rætt á rík­is­stjórn­ar­fundi á þriðjudagsmorgun og var tek­in ákvörðun um að skipa starfshóp fjögurra ráðuneyta, for­sæt­is-, dóms­mála-, ferðamála- og um­hverf­is­ráðuneyti, sem mun fara yfir ör­ygg­is­mál í jökla­ferðum og skoða hvað megi bæta og hvað hafi farið úr­skeiðis í slys­inu á Breiðamerk­ur­jökli.

Stein­unn Hödd Harðardótt­ir, þjóðgarðsvörður á aust­ur­hluta suður­svæðis Vatna­jök­ulsþjóðgarðs, segist í samtali við Morgunblaðið fagna þeirri ákvörðun og von­ast jafn­framt til að þjóðgarðsverðir Vatna­jök­ulsþjóðgarðs fái að koma með sína reynslu og sýn inn í þá vinnu. Seg­ir hún að lítill hluti þeirra ferðaþjón­ustuaðila sem eru með samn­ing við þjóðgarðinn hafi boðið upp á ís­hella­ferðir að sumri til og jafnframt að samn­ings­haf­ar samþykki að vera með hæft starfs­fólk sem geti metið aðstæður hverju sinni.

Á meðal þeirra sem hafa tjáð sig um slysið er Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands, og hefur hann sagt að bana­slysið hafi verið tif­andi tímasprengja. Í skýrslu sem hann skrifaði árið 2017, ásamt Finni Páls­syni og Jóni Gauta Jóns­syni um áhættumat vegna ferða í ís­hella fyr­ir Vatna­jök­ulsþjóðgarð, benda þeir á að ís­hella­skoðun að sumri til þætti mjög hættu­leg.

Marinó G. Njálsson, ráðgjafi og sérfræðingur í áhættustjórnun, öryggismálum og persónuvernd

Varaði við hættum á ferðamannastöðum árið 2009

Í gær skrifaði Marinó G. Njálsson, ráðgjafi og sérfræðingur í áhættustjórnun, öryggismálum og persónuvernd, færslu inn á Facebook-hópinn Bakland ferðaþjónustunnar þar sem hann rifjar upp bloggfærslu sem hann skrifaði í byrjun árs 2009 um öryggi á ferðamannastöðum

„Þarna hvatti ég til þess að farið væri í yfirgripsmikla úttekt á öryggi ferðamannastaða.  Sumt af þessu hefur verið gert, en betur má ef duga skal.

Sem sérfræðingur í áhættustjórnun, leiðsögumaður frá Leiðsöguskólanum í Kópavogi og lokið landvarðarnámi, þá tel ég mig hafa góða sýn yfir þessi mál.  Árin fimmtán frá því að færslan var birt hafa hins vegar ekki sannfært mig um að nóg sé gert.“ 

Bloggfærslu Marinós frá 2009 má lesa hér, en hana skrifaði hann eftir að  David Bauder, blaðamaður AP fréttastofunnar, ferðaðist til Íslands í desember 2008 og skrifaði um reynslu sína.  Grein Bauders birtist í blöðum um allan heim og segir Marinó fréttastofur á borð við ABC og FOX, stórblöð, tímarit, flugfélög og ferðaskrifstofur hafa birt grein hans á vefum sínum.

Segir Bauder konu hafa verið hætt komna við Gullfoss og við Geysi sé hægt að dýfa höndum í heitan hverinn ef menn kjósi. Mikilvægt sé að passa upp á börnin. Ferðamannastaðir séu opnir, á meðan slíkir staðir væru lokaðir ef þeir væru í Bandaríkjunum. 

Bendir Marinó á slysagildrur við Gullfoss og Geysi og segir

„Það er eiginlega með ólíkindum að ekki verði þarna mörg banaslys á hverju ári miðað við þann fjölda sem þarna fer um.

Aðstaða og öryggi við ferðamannastaði er víða úrbótavant. David Bauder bendir réttilega á, að búið væri að loka fyrir aðgengi að þessum stöðum í Bandaríkjunum og líklegast líka í flestum löndum í kringum okkur.  Eftir hverju er verið að bíða?  Fleiri banaslysum?  Lögsóknum?  Ég veit það ekki, en óttast það versta.

Ég hef lagt það til, að aðgerðir til útbóta á ferðamannastöðum, sé eitt af þvi sem hægt er að fara í til að fjölga störfum í landinu.  Sem sérfræðingur í öryggismálum og verðandi leiðsögumaður, þá hrís mér hugur við að sjá hve vanbúnir ferðamannastaðir eru varðandi öryggi ferðamanna.  Það er heldur ekki góð landkynning, þegar gagnrýni á þetta birtist í fjölmiðlum um allan heim.“ 

15 árum síðar verða enn banaslys við vinsæla og fjölfarna ferðamannastaði á Íslandi og ekki er slíkt góð landkynning frekar en fyrir 15 árum.

Ólína Kjerúlf þorvarðardóttir, prófessor og deildarforseti Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst
Mynd: Bifröst

Slysið sé áfellisdómur yfir of mörgum

Ólína Kjerúlf þorvarðardóttir, prófessor og deildarforseti Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, tjáir sig einnig um slysið á Facebook-síðu sinni. Ólína hefur lengi starfað sem fararstjóri fyrir Ferðafélag Íslands og hefur einnig starfað í björgunarsveit til fjölda ára.

Segir hún allt í ólagi þegar kemur að slysinu við Breiðamerkurjökul: 

„Nú bendir hver á annan varðandi það hver á að „leyfa“  eða „banna“  íshellaferðir að sumarlagi. Enginn ábyrgur og „slysin geta alltaf gerst“  viðhorfið.

Ég hef verið fararstjóri og björgunarsveitarmaður um árabil, og frá mínum sjónarhóli er allt í ólagi við þetta mál:

Fyrirtækið fer með hóp fólks inn í íshelli í 17 stiga sumarhita.

Fyrirtækið veit ekki hversu margir eru í hópnum.

Tugum björgunarmanna er stefnt í lífshættu við tilefnislausa leit að fólki sem var ekki týnt. 

Enginn virðist vita hver eigi að tryggja öryggi ferðamanna í ferðum sem þessum.

Ekki var farið eftir skýrslu vísindamanna sem vöruðu við íshellaferðum að sumarlagi strax 2017.

Enginn virðist hafa séð umrædda skýrslu svo að spyrja má hvort hún hafi yfirleitt verið kynnt þeim sem málið varðar.

Hver vísar á annan varðandi ábyrgð.

Lögreglan á svæðinu lýsir yfir „fullu trausti“  á starfsháttum fyrirtækisins að óathuguðu máli – er þar með orðin vanhæf til að koma að rannsókn atviksins vegna skorts á hlutleysi …

Ég gæti haldið áfram … þetta er einfaldlega áfellisdómur yfir of mörgum.“ 

Kristinn R. Kristinsson

Taldi að lærdómur hefði verið dregin af banaslysi fyrir 13 árum

„Þann 27 júní 2011 varð banaslys í íshelli í Kverkfjöllum. Ég hélt að það það hefði verið dreginn einhver lærdómur af því. Ekki fara í íshella að sumri til!! En svo virðist ekki hafa verið raunin! Það er alltaf áhætta að fara í íshella, þess vegna þarf alltaf að gæta fyllsta öryggis og aldrei fara í íshella að sumri til,“ 

segir Kristinn R. Kristinsson í færslu á Facebook-síðu sinni. 

Starfaði hann um nokkura ára skeið við að aka um landið með erlenda ljósmyndara og segist meðal annars hafa farið með viðskiptavini sína í íshella.

„Ég notaði einungis við leiðsögumenn sem sem voru fæddir og uppaldir á svæðinu og þekktu landið og eru lifandi goðsagnir í þessum bransa, aldrei var farið í þessa hella nema að vetri til þegar ísinn var gaddfreðinn!“  

Segist Kristinn vissulega hafa getað græjað slíkar ferðir sjálfur, en það hafi ekki komið til greina af hans hálfu.

„Í þessu hryllilega slysi sem nú varð í Breiðamerkurjökli kemur það síðan í ljós að fyrirtækið sem stóð að þessari ferð virðist gera allt fyrir þúsundkarlinn. Það sem mér finnst alvarlegast í þessu máli er að stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs sem er búin að gefa út 100.000þús. leyfi til fyrirtækja sem eru að selja íshellaferðir og „treysta“ ferðaþjónustufyrirtækjum til þess að meta áhættuna sjálf! Er ekki verið að grínast í mér!

Ríkisstjórnin borðar til fundar, skipar í nefndir til þess að fara yfir málaflokkinn, allir í áfalli yfir því að þetta hafi gerst!“  

Kristinn bendir einnig á að það sé kaldranalegt í stöðunni að björgunarsveit sem kom að aðgerðum við Breiðamerkurjökul hafi fyrir stuttu verið bannað að vera með árlega flugeldasýningu á Jökulsárslóni, sem er stærsta fjáröflun sveitarinnar. 

„Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs bannaði Björgunarsveitinni á Höfn að vera með árlega flugeldasýningu á Jökulsárlóni, en flugeldasýningin var stærsta fjáröflun sveitarinnar og var mikið sjónarspil fyrir þá er sáu. Björgunarsveitin lék stórt hlutverk í þeim björgunaraðgerðum sem nú hafa staðið yfir á Breiðamerkurjökli.“

Vil hann einfaldlega að stjórn Vatnsjökulsþjóðgarðs verði rekin og telur að ríkistjórnin og ferðaþjónustan muni ekkert læra af því hörmulega slysi sem varð við Breiðamerkurjökul á sunnudag.

„Það á að reka þessa stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs eins og hún leggur sig!! Mun ríkisvaldið og ferðaþjónustan læra eitthvað af þessu hörmulega slysi? Ég held ekki, því miður. Allt fyrir þúsundkallinn!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka
Fréttir
Í gær

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“