Isavia innanlandsflugvellir, dótturfélag Isavia, bauð ekki út klæðningarskipti á Blönduósflugvelli og gefur ekki upp hvernig kostnaðarskiptingin er við framkvæmdina sem fékk fjárveitingu upp á um 170 milljón krónur frá ríkinu. Verkfræðistofan sem fengin var til að hanna verkið er stýrt af föður verkefnastjóra framkvæmda hjá Isavia.
Framkvæmdir standa nú yfir á Blönduósflugvelli, sem er fyrst og fremst notaður undir sjúkraflug. Flugvöllurinn hefur verið lokaður síðan um verslunarmannahelgina og verður það eitthvað áfram.
Lengi hefur verið barist fyrir endurbótum á vellinum og nýlega fékkst loks rúmlega 170 milljón króna fjárveiting fyrir þeim. Fólk í bransanum klórar sér hins vegar í höfðinu yfir því hvernig Isavia innanlandsflugvellir ráðstafar þessum milljónum og þeirri leynd sem ríkir.
Ákveðið var að setja olíubundna klæðingu á brautina en ekki malbik. Þetta er mun verra efni og upp hafa komið vandamál því tengdu, eins og til dæmis þegar einkaþota sökk ofan í slitlag á flugvellinum á Rifi. Sams konar efni hefur verið notað á vegi víða og valdið bikblæðingum. Tilboði um að malbika völlinn, 26 þúsund fermetra braut og flughlað, fyrir 120 milljónir króna var hafnað af Isavia innanlandsflugvöllum.
Fyrir 173 milljónir króna taldi Isavia innanlandsflugvellir sig hins ekki geta klárað bæði flugbraut og flughlað og var því kannað verð hjá þremur verktökum að klæða aðeins brautina. Eftir aðfinnslur Bjarna Jónssonar, formanns umhverfis og samgöngunefndar Alþingis, var hluta flughlaðsins bætt við.
DV leitaði til Sigrúnar Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra Isavia innanlandsflugvalla, sem sagði að ekki væri uppgefið hvernig kostnaðurinn skiptist.
„Heildarkostnaður verður um 170 milljónir, þar er inni skipti á jarðveg, tvöfalt lag af klæðingu, málning og merkingar, hönnun og eftirlit,“ segir hún.
Aðspurð hvers vegna verkið var ekki boðið út, þar sem verkið kostar meira en 49 milljónir króna, segir Sigrún að Isavia innanlandsflugvellir hafi látið gera verðfyrirspurn til þriggja aðila. Það samræmist lögum um opinber innkaup þar sem kveðið er á um að aðilar sem annist vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu hafi aðra viðmiðunarfjárhæð samkvæmt Evrópureglugerð. Samkvæmt reglugerðinni eru viðmiðunarfjárhæðin fyrir verkkaup 808 milljónir króna.
„Verðfyrirspurn var send út þann 3. júní 2024 á þrjá verktaka. Skilyrði fyrir þátttöku var reynsla af sambærilegum framkvæmdum amk. frá tveimur sambærilegum verkefnum. Með sambærilegum verkefnum var átt við jarðvinnuverkefni, ásamt verkefni þar sem leggja þarf klæðingu. Heildarkostnaður við sambærileg verkefni þ.e hvert og eitt verkefni þurfti að vera 80% af tilboði bjóðanda,“ segir Sigrún. Var tilboði Borgarverks tekið.
DV spurði einnig um hönnun verksins og hvernig sá aðili hafi verið valinn. Í svari Sigrúnar kemur fram að verklýsingin hafi verið unnin af Verkfræðistofu Suðurnesja og verkfræðingum Isavia innanlandsflugvalla. Ekki kemur hins vegar fram hvers vegna Verkfræðistofa Suðurnesja var valin.
Þarna eru hins vegar augljós tengsl því að framkvæmdastjóri Verkfræðistofu Suðurnesja er Brynjólfur Guðmundsson, faðir Ólafs Rafns Brynjólfssonar, verkefnastjóra framkvæmda hjá Isavia innanlandsflugvöllum. Eins og áður segir gefur Isavia ekki upp hvað hönnuðir fengu fyrir verkið sem heimildarmenn DV telja ekki flókið í framkvæmd. Það er að 30 sentimetra lag sé tekið ofan af vellinum, annað sett í staðinn, völlurinn heflaður og klæðningarefni sett yfir.
Aðspurð hvers vegna ákveðið hafi verið að setja olíubundna klæðningu en ekki malbik segir Sigrún að þetta sé alltaf gert.
„Allir lendingarstaðir eru með klæðingu. Kostnaður við að leggja malbik er allt að 3 til 5 sinnum dýrari en klæðing. Kostnaður fer eftir fjarlægð frá malbikunarstöð og fleira,“ segir hún.
Miðað við tilboðið malbikunarframkvæmdar upp á 120 milljónir króna má áætla að lagning klæðningar eigi þá að kosta aðeins 24 til 40 milljónir króna.