Stúlka fór í hjartastopp eftir hnífstunguárás á menningarnótt. Var hún endurlífguð á staðnum.
Mbl.is greinir frá þessu.
Hjúkrunarfræðingurinn Ryan Corcuera, sem starfar á taugadeild Landspítala, átti leið fram hjá vettvangi árásarinnar, við Skúlagötu í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi. En þrjú ungmenni voru stungin og voru færð á bráðamóttöku Landspítalans.
Í samtali við mbl.is segist Ryan hafa séð stúlkuna, sem var á aldrinum 16 til 18 ára, liggjandi í blóði sínu á götunni. Allir hafi verið í sjokki, sumir öskrandi. Einn af þeim líklegast kærasti hennar. Nokkuð af fólki stóð í kringum stúlkuna þegar Ryan kom að og kom stúlkunni til hjálpar.
„Eftir nokkrar sekúndur fór hún í hjartastopp,“ sagði Ryan. Hún hafi verið föl og ekki geta opnað augun. „Það þurfti bara að hefja endurlífgun strax.“
Með endurlífgunaraðferðum tókst honum að endurlífga stúlkuna á tveimur eða þremur mínútum. Nokkrum mínútum eftir það mætti sjúkrabíll á staðinn. Var hún flutt á slysadeild og í aðgerð. Hún var í lífshættu.
Greint er frá því að Ryan, sem er upprunalega frá Filippseyjum, sé í áfalli eftir þetta. Hann sagðist vona að stúlkan væri á batavegi og óskar fjölskyldu hennar góðs.