fbpx
Sunnudagur 25.ágúst 2024
Fréttir

Aukin eftirspurn eftir svuntuaðgerðum en Sjúkratryggingar borga næstum aldrei – Kostnaður getur hlaupið á milljónum króna

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 25. ágúst 2024 09:00

Ásókn er mikil í svuntuaðgerðir eftir að efnaskiptaaðgerðir og þyngdarstjórnunarlyf komu á markaðinn. Mynd/Samsett/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásókn í svuntuaðgerðir hefur aukist umtalsvert á Íslandi á undanförnum árum. Bæði vegna þess að fólk í yfirþyngd getur misst mikla þyngd á skömmum tíma með efnaskiptaaðgerðum og með lyfjum. Aðgerðirnar eru oftast flokkaðar sem fegrunaraðgerðir hér á landi og niðurgreiðsla er því afar takmörkuð en margt fólk fer ekki síður í svuntuaðgerð til þess að bæta lífsgæði sín en útlit.

Fólk sem fer í efnaskiptaaðgerðir, það er magahjáveitu eða magaermi, missir oft á bilinu 50 til 70 prósent af yfirþyngdinni á fyrstu tveimur árunum eftir aðgerð. Hin nýju sykursýkislyf, Ozempic, Saxenda og Wegovy, hafa einnig virkað mjög vel til þyngdarstjórnunar og fólk misst kílóin hratt.

Eins og gefur að skilja hverfur ekki húðin eins og fituvefirnir og er því mjög algengt að fólk fari í svuntuaðgerðir eftir að miklu þyngdartapi er náð. Þá er umframhúð magans skorin í burtu og hert á magavöðvunum.

Helmingur fer í svuntuaðgerð

Samkvæmt tölum frá Svíþjóð fer um helmingur þeirra sem fara í efnaskiptaaðgerðir í einhvers konar lýtaaðgerð á eftir. Svuntuaðgerð eða minni aðgerðir eins og til að laga teygða húð eða ör.

Þetta fer allt eftir því hversu mikið þyngdartapið er og hversu hratt það gerist. En einnig hversu vel húðin er í stakk búin til að fylgja þyngdartapinu eftir. Eldra fólk og fólk sem missir mikla þyngd er líklegra til að þurfa svuntuaðgerðir en yngra fólk sem missir minni þyngd.

Í Svíþjóð er litið á efnaskiptaaðgerð og svuntuaðgerð sem einn pakka og er eru aðgerðirnar gerðar á sömu skurðstofu. Litið er á svuntuaðgerðina sem hluta af meðferðinni allri. Því er ekki fyrir að fara hér á landi. Íslenska ríkið greiðir fyrir efnaskiptaaðgerðir sem íslenskir læknar gera í Svíþjóð en annað gildir um svuntuaðgerðir.

Milljóna kostnaður

DV leitaði til Sjúkratrygginga Íslands til að spyrjast fyrir um kostnaðarþátttöku. Fengust þau svör að svuntuagðerðir eru flokkaðar sem lýtalækningar. Til þess að fá niðurgreiðslu þurfi læknir að senda umsókn fyrir fram til samþykktar. Sé umsóknin samþykkt greiði Sjúkratryggingar eftir stöðu sjúklings í greiðsluþátttökukerfinu, það er umfram 34 þúsund krónur á mánuði. Hvert mál sé metið fyrir sig.

Samkvæmt fagfólki í greininni sem DV ræddi við þá taka Sjúkratryggingar Íslands ekki þátt í kostnaði nema í algjörum undantekningartilfellum. Aðgerðirnar eru ekki framkvæmdar á Landspítalanum heldur af lýtalæknum á einkareknum stofum. Flestir lýtalæknar sem hafa aðgang að góðri skurðstofu geta framkvæmt svuntuaðgerð.

Kostnaðurinn getur hins vegar verið mikill. Samkvæmt óformlegri verðkönnun DV kostar minniháttar svuntuaðgerð á bilinu 600 til 650 þúsund krónur en stærri í kringum eina milljón.

Einnig er til enn stærri svuntuaðgerð, svokölluð hringsvunta. En þá er einnig skorið til hliðanna og upp undir brjóstsvæði. Sú aðgerð kostar í kringum 1,5 milljón króna.

Svuntuaðgerðir geta bætt líf fólks til muna. Mynd/Wikipedia

Þá ber að hafa í huga að algengt er að fólk fari í fleiri en eina svuntuaðgerð. Þannig að kostnaðurinn getur auðveldlega hlaupið á milljónum króna.

Sýkingar og sár

Umræða um kostnað við svuntuaðgerðir hefur sprottið upp við og við á samfélagsmiðlum og harma margir að Sjúkratryggingar taki ekki þátt í kostnaðinum. Aðgerðirnar séu afskrifaðar sem fegrunaraðgerðir þegar þær séu í raun miklu meira en það. Þær auki lífsgæðin til muna.

Í sumum tilfellum er verið að fjarlægja mörg kíló af húð, jafn vel meira en tíu kíló. Þetta er þyngd sem er ekki aðeins erfitt að burðast með, heldur andar þetta illa, nuddast saman og getur valdið ýmsum heilsufarsvandamálum. Til dæmis sárum, útbrotum, sveppasýkingum og öðrum húðsýkingum. Þá getur umframhúð gert alla hreyfingu og líkamsrækt erfiðari og þar með hindrað að viðkomandi byggi sig upp eftir þyngdartapið.

Kærði neitun um greiðsluþátttöku

Árið 2009 kærði einstaklingur Tryggingastofnun Ríkisins (sem á þeim tíma gegndi hlutverki Sjúkratrygginga) til Úrskurðarnefndar velferðarráðuneytisins eftir að stofnunin hafnaði greiðsluþátttöku í svuntuaðgerð. Aðgerðin kostaði 600 þúsund krónur sem væri rúmlega 1,1 milljón krónur á verðlagi dagsins í dag.

Sagði einstaklingurinn að aðgerðin hefði verið honum nauðsynleg til að hann gæti sinnt eðlilegum þáttum daglegs lífs. Þurfti hann að gista á sjúkrahúsi í tvo daga.

Tryggingastofnun taldi um fegrunaraðgerð að ræða og hún hefði ekki verið gerð hjá Landspítalanum. „Kæranda hafi verið vel kunnugt að um væri að ræða aðgerð utan tryggingakerfis enda hafi hann greitt fyrir sína aðgerð eins og aðrir sjúklingar sem gangast undir aðgerðir sem sjúkratryggingar ná ekki til,“ segir í úrskurðinum. Nefndin tók hins vegar ekki afstöðu í málinu og vísaði því frá þar sem hún taldi að engin kæranleg stjórnvaldsákvörðun væri til staðar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sá ókunnugan mann ganga inn á heimili hjónanna – „Ég heyrði aldrei nein óp eða öskur“

Sá ókunnugan mann ganga inn á heimili hjónanna – „Ég heyrði aldrei nein óp eða öskur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reykjavíkurborg veitti leyfi fyrir framkvæmdum sem stóðu fram á nótt

Reykjavíkurborg veitti leyfi fyrir framkvæmdum sem stóðu fram á nótt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úkraínumenn leita að rússneskum verkfræðingum og drepa þá – Myndband

Úkraínumenn leita að rússneskum verkfræðingum og drepa þá – Myndband
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skjálfti 4,0 að stærð fannst víða

Skjálfti 4,0 að stærð fannst víða
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stórbruni nálægt Stokkseyri

Stórbruni nálægt Stokkseyri
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margfaldur umferðarlagabrjótur hefur aldrei verið með bílpróf

Margfaldur umferðarlagabrjótur hefur aldrei verið með bílpróf