fbpx
Fimmtudagur 22.ágúst 2024
Fréttir

Treystir á táknmál en þurfti sjálf að útvega sér túlk og fær ekki endurgreiðslu

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 22. ágúst 2024 17:00

Mynd/Pexels. Myndin tengist fréttinni ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð vegna kæru sem beint var til ráðuneytisins sumarið 2023. Kona með skerta heyrn kærði þá ákvörðun Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra að neita henni um endurgreiðslu vegna aðkeyptrar túlkaþjónustu en miðstöðin hafði tjáð konunni að ekki væri hægt að útvega henni túlk þann dag sem hún þurfti á honum að halda. Ráðuneytið staðfesti ákvörðunina.

Í úrskurðinum er fötlun konunnar ekki lýst en tekið fram að hún noti íslenskt táknmál og leiða má því líkum að því að heyrn hennar sé að minnsta kosti verulega skert.

Í maí 2022 óskaði konan eftir endurgjaldslausri túlkaþjónustu frá Samskiptastöðinni vegna ónefnds viðburðar sem átti að fara fram í júní sama ár. Fleira fólk með sams konar fötlun var viðstatt viðburðinn. Rúmum þremur vikum eftir að konan lagði fram þessa beiðni var henni synjað á þeim grundvelli að Samskiptamiðstöðin hefði enga táknmálstúlka lausa umræddan dag. Konan hafði þá samband við einkafyrirtæki sem gat útvegað henni táknmálstúlk á þessum degi. Hún óskaði eftir því að Samskiptamiðstöðin myndi greiða fyrir túlkinn frá einkafyrirtækinu en því var hafnað og greiddi konan því fyrir þjónustuna úr eiginn vasa. Nokkrum mánuðum síðar fór lögmaður hennar fram á endurgreiðslu frá Samskiptamiðstöðinni en því var einnig hafnað.

Réttur

Í kæru konunnar sagði meðal annars að ákvörðun Samskiptamiðstövarinnar hafi brotið í bága við jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar og þeirra ákvæða hennar um að öllum skuli vera tryggður réttur samkvæmt lögum vegna sjúkleika. Því var einnig haldið fram að ákvörðunin gengi gegn samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í kærunni kom fram að þessi ákvæði sem og dómafordæmi Hæstaréttar tryggðu rétt konunnar til gjaldfrjálsrar túlkaþjónustu svo hún gæti átt samskipti og tekið þátt í daglegu lífi. Einnig var vísað til laga um Samskiptamiðstöðina og laga um íslenskt táknmál sem kveði á um að tryggt skuli að allir sem á þurfi að halda fái túlkaþjónustu á táknmáli.

Samskiptamiðstöðin vísaði meðal annars til þess að hún yrði að reka starfsemi sína innan ramma fjárlaga og hefði enga heimild samkvæmt lögum til að greiða fyrir þjónustu annarra aðila séu túlkar hennar ekki tiltækir. Samskiptamiðstöðin vísaði einnig til þess að hún hefði tiltekna gjaldskrá og af henni megi ráða að ekki séu allar beiðnir um endurgjaldslausa túlkaþjónustu samþykktar, það sama gilti um reglugerð um þjónustuna sem kvæði á um að hún væri ýmist gjaldfrjáls eða samkvæmt gjaldskrá.

Sinnti ekki öllum skyldum sínum

Menningar – og viðskiptaráðuneytið tók aðeins fyrir þann anga málsins sem snéri að neitun Samskiptamiðstöðvarinnar við þeirri ósk konunnar að fá endurgreiðslu vegna aðkeyptu túlkaþjónustunnar. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar Samskiptamiðstöðvarinnar að synja konunni um túlkaþjónustu var hins vegar liðinn en hann er eitt ár samkvæmt stjórnsýslulögum.

Í úrskurði ráðuneytisins segir að Samskiptamiðstöðin hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að leiðbeina konunni um að hún hefði eitt ár til að keyra þá ákvörðun að neita henni um túlkaþjónustu. Það væri hins vegar ekki hægt að falla frá kærufrestinum í málinu vegna skýrra ákvæða stjórnsýslulaga. Samskiptamiðstöðin hafi hins vegar sinnt leiðbeiningarskyldu sinni þegar kom að kærufresti vegna synjunarinnar á endurgreiðslu vegna kostnaðar við aðkeyptu túlkaþjónustuna.

Mátti segja nei

Í niðurstöðu ráðuneytisins segir að Stjórnarskráin kveði ekki á um beinan rétt fólks til að fá aðstoð frá hinu opinbera, vegna sjúkleika, heldur að því beri skylda til að setja lög um slíka aðstoð. Er þá vísað til laga um Samskiptamiðstöðina og gjaldskrár á grundvelli laganna sem kveði á um að hún hafi heimild til að bjóða endurgjaldslausa túlkaþjónustu en beri ekki skylda til þess. Í gjaldskrá sé einnig tekið fram að gæta skuli jafnræðis milli notenda þjónustunnar með tilliti til þeirrar fjárveitingar sem Samskiptamiðstöðin hefur til ráðstöfunar.

Ráðuneytið tekur þó fram að í úrskurðinum sé miðað við þá gjaldskrá sem í gildi var þegar málið kom fyrst upp 2022 en ný gjaldskrá Samskiptamiðstöðvarinnar hafi tekið gildi á þessu ári.

Hvað varðar þau ákvæði laga um íslenskt táknmál sem kveða á um að hið opinbera eigi að sjá til þess að allir sem þurfi á því halda fái þjónustu á íslensku táknmáli segir ráðuneytið það ekki vera ljóst hvort það á við alla þjónustu sama hvort hið opinbera eða einkaaðilar veiti hana. Heiti ákvæðisins bendi þó til að það eigi eingöngu við um þjónustu hins opinbera.

Ráðuneytið tekur einnig undir það með Samskiptamiðstöðinni að það geti komið upp sú staða að allir túlkar hennar séu uppteknir á þeim tíma sem óskað er eftir þjónustu þeirra. Sömuleiðis var ráðuneytið sammála þeirri niðurstöðu Samskiptamiðstöðvarinnar um að hún hefði enga lagaheimild til að greiða fyrir túlkaþjónustu frá utanaðkomandi aðila.

Þar af leiðandi staðfesti menningar- og viðskiptatráðuneytið þá ákvörðun Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra að neita því að endurgreiða konunni fyrir þjónustu táknmálstúlks sem hún þurfti að greiða fyrir úr eiginn vasa.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Inga ósátt við Bjarna eftir viðtalið hjá Sölva – „Reyndi að skola af sér alla ábyrgð“

Inga ósátt við Bjarna eftir viðtalið hjá Sölva – „Reyndi að skola af sér alla ábyrgð“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Skora á öll starfandi flugfélög að neita að flytja Yazan úr landi

Skora á öll starfandi flugfélög að neita að flytja Yazan úr landi
Fréttir
Í gær

Lögreglan birtir myndband um hvernig rafbyssur verða notaðar – „Heftir tímabundið viljastýrðar vöðvahreyfingar einstaklinga í fimm sekúndna hrinum“

Lögreglan birtir myndband um hvernig rafbyssur verða notaðar – „Heftir tímabundið viljastýrðar vöðvahreyfingar einstaklinga í fimm sekúndna hrinum“
Fréttir
Í gær

Hrottafengni raðmorðinginn „Vampíran“ náði að flýja úr fangelsi – Hefur játað að hafa drepið 42 konur

Hrottafengni raðmorðinginn „Vampíran“ náði að flýja úr fangelsi – Hefur játað að hafa drepið 42 konur