Tolli undirbýr nú sýningu sem sækir efnivið í Kerlingarfjöll og Landmannalaugar og ákváðu hann og Árni að fara í ferð þar sem hann hugðist mála eina mynd til viðbótar.
Fóru þeir upp á hrygginn fyrir ofan Frostastaðavatn og málaði Tolli fallega mynd sem sjá má á síðum Morgunblaðsins í dag.
Þegar kom að því að halda heim á leið var myndin sett aftan í bílinn sem hristist töluvert þegar ekið var á malarveginum yfir Landmannaleið.
Eftir nokkra keyrslu ákvað Árni, sem er einn færasti ljósmyndari landsins, að stoppa til að taka mynd en þá tók hann eftir því að myndin var horfin. „Þetta er ekki gott,“ segir Tolli að Árni hafi sagt en hlerinn á bílnum hafði opnast á leiðinni og myndin fokið út.
„Eftir það flögraði hún væntanlega yfir hálendinu og hefur eflaust fundið stað sem við vitum ekki hvar er,“ segir Tolli í Morgunblaðinu um þetta óvenjulega atvik.
„Á einu augnabliki breyttist verkið yfir í hugmyndalist um forgengileikann, hvernig allt breytist og ekkert er á hönd fest. Ég var því fljótur að sætta mig við þetta. Svona er þetta bara. Við ráðum engu,“ bætir hann við.