fbpx
Fimmtudagur 22.ágúst 2024
Fréttir

Margfaldur umferðarlagabrjótur hefur aldrei verið með bílpróf

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 22. ágúst 2024 18:00

Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjaness yfir ungum manni fyrir alls 16 umferðalagabrot en einnig þjófnaðarbrot og brot á fíkniefnalögum. Fyrr á þessu ári var maðurinn dæmdur fyrir 14 umferðarlagabrot og gekk einnig undir viðurlagaákvörðun dómara vegna þriggja annarra umferðarlagabrota. Því er ljóst að alls hefur maðurinn gerst sekur um að brjóta umferðarlög í 33 skipti. Af samhengi dómsins má ráða að ungi maðurinn hafi aldrei öðlast ökuréttindi þótt það sé ekki beinlínis tekið fram í dómnum.

Í dómnum segir að fyrsta umferðarlagabrotið sem maðurinn var dæmdur fyrir að þessu sinni hafi hann framið í ágúst 2022 en þá var maðurinn 17 ára gamall. Það brot fólst í því að hann ók bifreið án þess að hafa öðlast ökurétt. Öll hin brotin, sem voru framin árin 2023 og 2024, fólust einnig í því að maðurinn ók bifreið án þess að hafa öðlast ökurétt. Flest brotin voru framin í Reykjavík en eitt í Hafnarfirði og eitt í Kópavogi. Maðurinn var einnig dæmdur fyrir að hafa í 8 af þessum 16 skiptum ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Loks var maðurinn dæmdur fyrir að hafa í félagi við þekkta aðila brotist inn í söluturn og stolið þaðan sígarettum. Sömuleiðis var maðurinn dæmdur fyrir eitt brot á fíkniefnalögum en í eitt skiptið sem hann var stöðvaður við akstur undir áhrifum og án ökuréttinda fannst 1,42 grömm af maríhúana á honum.

Þrisvar á þremur mánuðum

Um sakaferil mannsins segir í dómnum að í júní 2024 hafi hann verið dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir 14 umferðarlagabrot, þar af 11 brot framin fyrir 18 ára aldur og 10 þjófnaðarbrot sem öll voru framin fyrir 18 ára aldur. Jafnframt hlaut maðurinn 740.000 króna sekt og var sviptur ökurétti í fimm ár.

Maðurinn var því bersýnilega sviptur ökurétti fyrst í júní 2024 en fyrsta brotið sem hann var dæmdur fyrir nú í gær framdi hann 2022 þegar hann var 17 ára og fólst það eins og áður segir í því að aka án þess að hafa öðlast ökurétt. Því virðist ekki annað blasa við en að maðurinn hafi aldrei nokkurn tímann fengið ökurétt sem eins og flestir ættu að vita er í daglegu tali kallað bílpróf.

Í júlí 2024 gekkst maðurinn undir viðurlagaákvörðun dómara vegna þriggja umferðarlagabrota sem hann framdi árið 2023. Fékk maðurinn 650.000 króna sekt og var sviptur ökurétti í 11 mánuði.

Á heimasíðu héraðssaksóknara segir um fyrirbrigðið viðurlagaákvörðun að ef ákærði sæki dómþing við þingfestingu máls og játi þá háttsemi sem honum sé gefin að sök þá megi ákærandi gefa honum kost á að ljúka máli með því að gangast undir sekt. Ef ákærði fallist á slík málalok og dómari telji viðurlög hæfileg geti hann lokið máli með ákvörðun sinni um þau viðurlög.

Sviptur í þriðja sinn

Öll brotin sem maðurinn var dæmdur fyrir í gær framdi hann áður en fyrri dómurinn og viðurlagaákvörðunin voru kveðin upp. Var það metið honum til refsiauka en á móti var horft til ungs aldurs hans og þess að hann játaði brot sín skýlaust fyrir dómi.

Að þessu sinni þótti því hæfilegt að dæma hann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Maðurinn var jafnframt sviptur ökurétti í þriðja sinn á þremur mánuðum en í þetta skipti ævilangt. Sömuleiðis þarf maðurinn að greiða sakarkostnað og þóknun verjanda síns, alls 1,3 milljónir króna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Inga ósátt við Bjarna eftir viðtalið hjá Sölva – „Reyndi að skola af sér alla ábyrgð“

Inga ósátt við Bjarna eftir viðtalið hjá Sölva – „Reyndi að skola af sér alla ábyrgð“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Skora á öll starfandi flugfélög að neita að flytja Yazan úr landi

Skora á öll starfandi flugfélög að neita að flytja Yazan úr landi
Fréttir
Í gær

Lögreglan birtir myndband um hvernig rafbyssur verða notaðar – „Heftir tímabundið viljastýrðar vöðvahreyfingar einstaklinga í fimm sekúndna hrinum“

Lögreglan birtir myndband um hvernig rafbyssur verða notaðar – „Heftir tímabundið viljastýrðar vöðvahreyfingar einstaklinga í fimm sekúndna hrinum“
Fréttir
Í gær

Hrottafengni raðmorðinginn „Vampíran“ náði að flýja úr fangelsi – Hefur játað að hafa drepið 42 konur

Hrottafengni raðmorðinginn „Vampíran“ náði að flýja úr fangelsi – Hefur játað að hafa drepið 42 konur