fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Fréttir

Vilhjálmur sár og svekktur: Bankarnir „sleikja út um“ og græða eins og enginn sé morgundagurinn 

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 21. ágúst 2024 10:00

Vilhjálmur Birgisson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér líður ekki mjög vel,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans.

Það fór eins og margir bjuggust við og verða stýrivextir óbreyttir enn eina ferðina í 9,25%. Í röksemd sinni segir nefndin að verðbólga hafi aukist lítillega frá síðasta fundi nefndarinnar og undirliggjandi verðbólga sé enn mikil.

Vilhjálmur hefur lengi verið gagnrýninn á Seðlabankann og hann gat ekki leynt gremju sinni í viðtalinu í Bítinu.

„Ég er mjög hissa á þessari ákvörðun, sérstaklega í ljósi þess að við erum búin að fara í einu og öllu eftir því sem Seðlabankinn hefur óskað eftir að aðilar vinnumarkaðarins myndu gera. Og takið eftir að þegar við vorum að semja þá glumdi það í eyrum okkar að einn mikilvægasti óvissuþátturinn í íslensku efnahagslífi væru kjarasamningar á hinum almenna markaði,“ sagði Vilhjálmur.

Stýrivextir verða óbreyttir

„Við réðumst í þetta verkefni, tókum vissa áhættu sem var fólgin í því að ganga hér frá langtímasamningum til fjögurra ára með afar hófstilltum hætti. Núna erum við búin að því og ekki bara það heldur er líka búið að ganga frá kjarasamningum á hinum opinbera vinnumarkaði með sambærilegum hætti og gert var á almenna markaðnum. Þannig að það er komin ró á vinnumarkaðinn næstu fjögur árin og þessari óvissu hefur algjörlega verið ýtt til hliðar,“ sagði hann.

Hann viðurkennir fúslega að hann hafi ekki í sínum „blautustu og villtustu“ draumum reiknað með  því að stýrivextir væru enn óbreyttir í 9,25% fimm mánuðum eftir að kjarasamningar voru undirritaðir.

Rammruglað kerfi

Vilhjálmur segir að öll spjót hafi alltaf beinst að aðilum vinnumarkaðarins sem semji um of miklar launahækkanir.

„Núna erum við að semja með afar hófstilltum hætti og það virðist ekki hafa nein áhrif. Það er rétt að geta þess að 50% af verðbólgunni frá áramótum er vegna hækkunar á húsnæðisverði eða svokallaðs húsnæðisliðar, þrátt fyrir að við séum með stýrivexti í 9,25%. Þetta háa vaxtastig var meðal annars til að slá á verðhækkanir á húsnæðisverði,“ segir Vilhjálmur sem kennir hinu „rammruglaða“ íslenska kerfi um þar sem fólki með óverðtryggð lán er smalað yfir í verðtryggð lán þar sem vextirnir eru lægri en á óverðtryggðum lánum. Þetta hafi meðal annars þau áhrif að stýrivaxtastæki Seðlabankans virkar ekki.

„Það er mikilvægt að almenningur átti sig á því að verðtryggingarjöfnuður bankanna sem birtist um daginn hefur nífaldast,“ segir Vilhjálmur og bætir við að þessi jöfnuður sé 490 milljarðar í dag. Þetta þýði að bankarnir eiga 490 milljörðum meira í verðtryggðum eignum heldur en skuldum. Segir Vilhjálmur að í sinni einföldustu mynd hagnist bankarnir á verðbólgu, 1% hækkun verðbólgu þýði 49 milljarða króna hagnaður fyrir þá.

„Verðtryggingajöfnuður bankanna hefur aldrei verið hærri heldur en hann er í dag. Hann er hærri en árið 2007 og það endurspeglast í því að það er búið að þvinga íslensk heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki yfir í verðtryggða fjármögnun í skugga hárra vaxta. Það gerir það að verkum að stýrivaxtatæki Seðlabankans virkar ekki,“ segir hann og bætir við að bankarnir sleiki út um þessa dagana.

Græða eins og enginn sé morgundagurinn

„Það þarf ekki annað en að skoða afkomutölur viðskiptabankanna til að sjá hvað er að gerast þar. Þeir græða eins og enginn sé morgundagurinn og það stefnir í allt að 100 milljarða hagnað hjá þeim enn og aftur. En það er bara íslenskur almenningur sem líður fyrir þetta.“

Vilhjálmur sagði að lokum að fara þurfi í rótargreiningu á því hvers vegna aðeins tvö lönd í heiminum séu með hærra vaxtastig en við, það er Rússland og Úkraína.

„Úkraína og Rússland sem eru í blóðugum stríðsástökum. Þetta eru löndin sem eru fyrir ofan okkur. Öll önnur lönd sem við erum að bera okkur saman við eru með miklu, miklu, miklu lægra vaxtastig heldur en við. Frá 2014 til 2019 var meðaltalsverðbólga hér í kringum 2%. Samt vorum við með stýrivexti á þessum tíma frá 4-6%. Það virðist ekki máli skipta hvernig efnahagsástandið er á hverjum tíma fyrir sig. Það skal alltaf vera þrefalt hærra heldur en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Vilhjálm hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Við getum öll verið einmana innan um fullt af fólki og maður getur verið mjög lítið einmana einn“

„Við getum öll verið einmana innan um fullt af fólki og maður getur verið mjög lítið einmana einn“
Fréttir
Í gær

Myndband frá bílbruna í Strýtuseli

Myndband frá bílbruna í Strýtuseli
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ingibjörg sýnir hvernig sagan er að endurtaka sig og hvað getur „leitt okkur út úr þessum ógöngum“

Ingibjörg sýnir hvernig sagan er að endurtaka sig og hvað getur „leitt okkur út úr þessum ógöngum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Höfundur ísraelska lagsins sem sakar VÆB um lagastuld hefur sett málið í hendur lögmanna sinna – „Hreinn og beinn stuldur á minni vinnu“

Höfundur ísraelska lagsins sem sakar VÆB um lagastuld hefur sett málið í hendur lögmanna sinna – „Hreinn og beinn stuldur á minni vinnu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fékk lán í rekstrarerfiðleikum og afsalaði fasteign til eiginkonunnar – Sýknuð af kröfu um tæpar 14 milljónir vegna gjafagjörnings

Fékk lán í rekstrarerfiðleikum og afsalaði fasteign til eiginkonunnar – Sýknuð af kröfu um tæpar 14 milljónir vegna gjafagjörnings
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir lét umskera lim sonar síns í heimahúsi – Endaði í lífshættulegri aðgerð á Sjúkrahúsi Akureyrar

Móðir lét umskera lim sonar síns í heimahúsi – Endaði í lífshættulegri aðgerð á Sjúkrahúsi Akureyrar