Kraftlyftingamaðurinn Steve Coyne telur að Hafþór Júlíus Björnsson hafi mátt þola strangari dómgæslu í keppninni Sterkasti maður jarðar en sigurvegarinn Mitch Hooper. Hooper hafi marg oft á undanförnum árum komist upp með að klára ekki æfingar sínar til fulls í keppnisgreinum.
Coyne fer yfir ítarlega yfir málið í myndbandi á Youtube sem ber yfirskriftina „Er Mitch Hooper að svindla?“ (e: Is Mitch Hooper cheating?) Niðurstaðan sé sú að svo sé ekki, en að Hooper nýti sér allan þann slaka sem hann telji sig komast upp með hjá dómurum og að dómgæslan sé afar misströng.
Hafþór Júlíus varð í öðru sæti í keppninni Sterkasti maður jarðar sem fór fram í Colorado í Bandaríkjunum á dögunum. Þetta er ekki keppnin fræga Sterkasti maður heims. Hafþór vann fimm greinar og setti tvö heimsmet en það dugði ekki til. Hooper vann keppnina með nokkuð afgerandi mun.
Coyne nefnir að Hafþór hafi fengið einstaklega strangan dómara í sirkus handlóðagreininni, Terry Hollins. Hollins var byrjaður að gefa handmerki um að æfing Hafþórs hafi tekist og því hafi Hafþór sett niður lóðin en merkið var hins vegar ekki klárað.
„Ég tel að Hafþór hafi verið rændur í þessari grein,“ segir Coyne. „Ströng dómgæsla er góð svo lengi sem það á við um alla. Vandinn er að Terry Hollins er einn maður og hann var ekki að dæma hjá öllum.“
Á sama tíma hafi Hooper til dæmis ekki hafa þurft að dýfa sér jafn djúpt og aðrir í hnébeygjugreininni.
Coyne bendir á að Hooper hafi sýnt ótrúlega jafna frammistöðu í öllum greinum í keppninni. Hann hafi líka unnið flestar keppnir á undanförnum árum, Sterkasti maður heims, Arnold Classic, Arnold Classic UK og fleiri.
En atriði er varði dómgæslu hafi einnig komið upp á þeim mótum. Til dæmis í keppninni Sterkasti maður heims, sem Hooper vann árið 2023. Þá hafi Hooper augljóslega verið með beygt bak í handlóðagreininni og ekki staðið að fullu uppréttur í drumbalyftunni, svo dæmi séu tekin.
Coyne segir Hooper ekki vera að svindla, heldur frekar að hann sé klár í að nýta sér slaka dómgæslu til þess að klára ekki æfingarnar. Hann komist upp með þetta og þessi litli munur dugi honum til sigurs.