fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Máttu neita barni um skólaakstur

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 21. ágúst 2024 14:30

Mennta- og barnamálaráðuneytið í Borgartúni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð sinn í máli sem varðar ákvörðun ónefnds sveitarfélags um að synja því að bjóða barni sem gekk í grunnskóla sem sveitarfélagið rekur upp á akstur í skólann. Foreldri barnsins kærði ákvörðunina en ráðuneytið staðfesti ákvörðun sveitarfélagsins.

Þótt sveitarfélagið sé ekki nefnt á nafn í úrskurðinum blasir við að það er á landsbyggðinni og þar að auki dreifbýlt.

Í úrskurðinum kemur fram að barnið hefur verið nemandi í einum af þremur grunnskólum sveitarfélagsins. Er sveitarfélaginu skipt í þrjú skólahverfi en árið 2014 fékk barnið undanþágu frá þeirri meginreglu sveitarfélagsins að börn skuli sækja skóla innan síns skólahverfis. Barnið hefur alla sína grunnskólagöngu sótt skóla í öðru skólahverfi en heimili þess tilheyrir. Skólaakstur milli heimilis barnsins og skólans sem það hefur sótt var skipulagður skólaárið 2014-2015 og stóð óslitið út skólaárið 2022-2023 þegar barnið lauk 9. bekk. Skólaakstur til skóla utan skólahverfis hafði hins vegar verið með þessum hætti frá 2013 vegna fleiri barna í sveitarfélaginu sem sóttu skóla utan síns skólahverfis.

Nýtt skólahverfi enginn akstur

Sveitarfélagið bauð á síðasta ári út skólaakstur fyrir árin 2023-2028. Í útboðinu var gert ráð fyrir akstursleið að heimili barnsins en útboðið var fellt niður vegna formgalla og auglýst að nýju. Í nýja útboðinu var hins vegar akstursleiðina að heimili barnsins ekki að finna. Meirihluti fræðslunefndar sveitarfélagsins hafnaði því síðastliðið haust að gera breytingar á væntanlegum akstursleiðum til að koma til móts við barnið og önnur börn í sömu stöðu, á þeim grundvelli að foreldrar væru upplýstir um það að ekki sé boðið upp á akstur samhliða námsvist í öðru skólahverfi en heimili viðkomandi barns tilheyrir.

Nýja fyrirkomulagið tók gildi skólaárið 2023-24. Skólastjóri í skólanum sem barnið hafði gengið í alla sína grunnskólagöngu tilkynnti foreldrum daginn fyrir skólasetningu að nú þyrfti að aka börnum sem búsett væru utan þeirra akstursleiða sem nú hefðu tekið gildi til móts við skólabílinn. Þegar þetta nýja fyrirkomulag tók gildi var barnið að hefja nám í 10. bekk en stóð, ólíkt því sem hafði verið alla grunnskólagönguna fram að þessu, ekki til boða skólaakstur milli heimilis síns og skólans.

Mismunun

Foreldri barnsins óskaði eftir því við sveitarfélagið að akstursleiðirnar yrðu endurskoðaðar en þeirri ósk var hafnað.

Í kæru sinni vísaði foreldri barnsins meðal annars til þess að breytingarnar á skólaakstrinum hefðu ekki verið kynntar nægilega vel og ekki heldur tímanlega. Af fundargerðum og tilkynningum á heimasíðu sveitarfélagsins hafi heldur ekki mátt ráða hvaða breytingar væru fyrirhugaðar á akstursleiðum skólabílsins. Breytingarnar hafi ekki verið kynntar formlega á heimasíðu sveitarfélagsins fyrr en eftir að foreldrið sjálft gerði athugasemdir við það í kjölfar skólasetningar. Vildi foreldrið meina að skipulag skólahverfa og skólaaksturs í sveitarfélaginu leiddi til mismununar meðal grunnskólabarna.

Sveitarfélagið færði margvísleg rök fyrir því að legið hafi fyrir strax vorið 2023 að til stæði að breyta akstursleiðunum. Sveitarfélagið vildi einnig að meina að þótt að fyrirkomulag skólaakstursins hefði verið með ákveðnum hætti frá 2013-2023 bindi það ekki hendur þess að hafa fyrirkomulagið óbreytt um ókomna tíð. Því beri að haga akstrinum með tilliti til staðsetningar skóla og nemenda með sem mestri hagkvæmni fyrir sveitarfélagið. Nýja skipulaginu hafi verið ætlað að stuðla að skilvirkari og hagkvæmari þjónustu. Sagði sveitarfélagið einnig að þegar barninu var árið 2014 veitt undanþága frá þeirri reglu að sækja skóla í sínu skólahverfi hafi foreldrinu verið tilkynnt að yfirleitt fylgdi skólaakstur ekki skólasókn í öðru skólahverfi.

Svigrúm en skortur á samtali

Samkvæmt niðurstöðu mennta- og barnamálaráðuneytisins hafa sveitarfélög landsins, samkvæmt lögum, ákveðið svigrúm til að skipuleggja skólaakstur svo lengi sem það sé byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Segir ráðuneytið sveitarfélagið byggja synjunina á reglum um skólaakstur í dreifbýli sem tekið hafi gildi vorið 2023 og samkvæmt þeim sé börnum tryggður skólaakstur innan skólahverfa en ekki utan þeirra. Skipulag skólahverfanna í sveitarfélaginu sé í samræmi við það svigrúm sem það hafi samkvæmt lögum um grunnskóla til að skipuleggja skólastarfið og skólaaksturinn.

Vildi ráðuneytið því meina að nýja fyrirkomulagið á skólaakstrinum byggi á málefnalegum sjónarmiðum. Ráðuneytið telur þó að betur hefði farið á því að sveitarfélagið hefði haft frumkvæði að því að ræða breytingarnar við foreldra þeirra barna sem myndu ekki lengur njóta skólaaksturs vegna skólasóknar í öðru skólahverfi. Ráðuneytið tók einnig undir að kynna hefði mátt breytingarnar betur og með meiri fyrirvara. Það mat annmarka á málsmeðferðinni hins vegar ekki svo mikla að það þeir leiddu til ógildingar ákvörðunarinnar.

Ákvörðun sveitarfélagsins um að neita barninu, á síðasta skólaári þess í grunnskóla, um skólaakstur frá heimili að skóla í öðru skólahverfi var því staðfest.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“
Fréttir
Í gær

Kirkjugarður Hafnarfjarðar að breytast í bílakirkjugarð

Kirkjugarður Hafnarfjarðar að breytast í bílakirkjugarð
Fréttir
Í gær

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar