Greint var frá því á dögunum að Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, fái við starfslok sín 9,7 milljónir króna í orlofsuppgjör frá borginni vegna síðustu 10 ára í valdastóli auk 9,6 milljóna króna í biðlaun.
Dagur fær tæpar 10 milljónir í uppsafnaðar orlofsgreiðslur – „Óeðlilegt,“ segir oddviti minnihlutans
Morgunblaðið greindi frá því í síðustu viku að Dagur hafi átt rétt á 240 orlofsstundum á ári þegar hann gegndi starfinu. Hann hafi ekki getað tekið fullt orlof á meðan valdatíð hans stóð og því söfnuðust stundirnar upp og voru gerðar upp við starfslok hans. Sagði borgarritari að þessi framkvæmd væri viðhöfð eins gagnvart öllu starfsfólki Reykjavíkurborgar. Á almennum markaði fyrnast hins vegar orlofsstundir iðulega og hafði Morgunblaðið eftir Hildi Björnsdóttur að hún teldi ekki um eðlilega framkvæmd að ræða.
„Við höfum fengið ábendingar um að orlofsinneign hafi horfið út úr kerfinu. Við erum að vinna með þær og erum rétt að hefja þá vinnu. Við erum ekki komin lengra en að fá staðfestingu okkar félagsmanna á að slíkt hafi átt sér stað og hvernig það hafi komið til,“ segir Þórarinn við Morgunblaðið í dag og bætir við að ekki sé ljóst hversu langan tíma sú vinna tekur.
„Ef krafan er fyrnd þá hefur hún þurrkast út úr launakerfi borgarinnar og það getur tekið einhvern tíma að fá upplýsingar um það. Á þessum tímapunkti er komin upp ákveðin óvissa og við þurfum einhvern tíma til að ná föstu landi undir fætur,“ segir Þórarinn sem bætir við að nú sé komið fordæmi fyrir því að orlof fyrnist ekki hjá Reykjavíkurborg.